144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að fletta þessu öllu upp og umræðum í tengslum við fjárlögin og væri sjálfsagt og eðlilegt að gera það.

Aðeins út af þessu með nauðsynjarnar. Mér finnst það nokkuð bratt að koma hér og segja þetta. Talandi um viðhald á bíl, ef þú átt bíl þá getur þú ekkert beðið með það, ef hann bilar þarf að kaupa varahlut. Ég er enginn sérfræðingur en svo mikið veit ég.

Mér finnst skinhelgin vera nokkuð mikil. Ég las á sínum tíma bækling sem hét „Nomenklatura“, sem var um Sovétríkin sálugu. Þar var ákveðinn hópur sem gat keypt vörur og þjónustu á allt öðru verði og af miklu meiri fjölbreytni en almenningur. Hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur stór hluti fólks hér efni á því og getur keypt hluti erlendis og gerir það. Sumt fólk hefur bara ekki efni á því og það kaupir allt hér heima. Ég held að það sé sjálfsagt og eðlilegt að við jöfnum þennan mun og reynum að lækka gjöldin (Forseti hringir.) hjá því fólki sem þarf að kaupa allt hér heima. Menn geta talað digurbarkalega um það að menn þurfi ekkert annað en mat, það (Forseti hringir.) stenst bara ekki neina skoðun.