144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áherslur mínar hafa verið alveg skýrar þegar kemur að húsnæðismálum. Ég hef látið þau mig varða alveg síðan árið 1995. Ég tel að sú leið sem við förum varðandi séreignarsparnaðinn, þ.e. séreignarleiðin, sé mjög skynsamleg. Þar er verið að hvetja fólk til þess að leggja fyrir og nýta kerfið og atvinnurekendur til að hjálpa fólki til að greiða niður lánin sín. Það er afskaplega skynsamleg leið. Við sjálfstæðismenn vorum líka með stefnu um að ganga lengra, þ.e. um ákveðinn skattafslátt til þess að greiða niður skuldir. Af hverju? Vegna þess að íslensk heimili eru mjög skuldsett og það er að sjálfsögðu eitthvað sem allir hagnast á ef skuldsetning íslenskra heimila minnkar, það er ekki nokkur einasta spurning. Það er ekki gott fyrir efnahagslífið eða þjóðlífið í heild sinni ef stór hluti fólks er mjög skuldsettur.

Síðan getum við tekið umræðuna um húsnæðismálin. Ég vona að við gerum það og ég vona að við breytum áherslum hvað þau varðar. En það að hjálpa fólki til að greiða niður skuldir sínar er í eðli sínu gott.