144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn er sá að á þeim tíma, þegar farið var í þessa uppbyggingu, fækkaði hjúkrunarrýmum. Vandinn er sá, ef hv. þingmaður vill kynna sér hvað breytt aldurssamsetning þýðir og hvaða áætlun er í gangi, að þá gengur það ekki upp. Það er það sem ég hef verið að vekja athygli á. Menn hafa augljóslega ekki verið meðvitaðir um það, að minnsta kosti ekki nægjanlega meðvitaðir, á síðasta kjörtímabili. Tölurnar tala sínu máli.

Í sambandi við nýju verkefnin sem ég nefndi þá held ég að við séum öll sammála um það að við hefðum viljað getað nýtt milljarðana sem í þau fóru, og ýmislegt fleira mætti taka til, í heilbrigðisþjónustuna. Ég held að þegar sagan verður skoðuð munum við spyrja: Af hverju í ósköpunum nýttu menn þetta ekki frekar í heilbrigðisþjónustuna?

Hlutfallið 2014 í ríkisreikningi sem fór í heilbrigðisþjónustu var 46%, 2012 var það 44%. Við erum að tala um nýju verkefnin eins og t.d. Náttúruminjasafnið, sem er auðvitað góðra gjalda vert, sem hækkaði um 231%. Ríkisstjórnin fór í það, fram hjá Ríkiskaupum, að semja við Reykjavíkurborg um ótrúlegan leigusamning við Perluna sem hefði kostað skattgreiðendur 1 og hálfan milljarð á ákveðnu tímabili. Sem betur fer var því hrundið.

Við getum nefnt líka Íbúðalánasjóð. Þrátt fyrir viðvaranir tóku menn ekki á því verkefni. Sömuleiðis eru þarna stofnanir eins og Náttúrufræðistofnun og Sinfóníuhljómsveitin sem fer hvor um sig yfir 100%, og stofnanir sem eru í kringum 100% eins og Jafnréttisstofa, Mannvirkjastofnun og ýmislegt annað má nefna. Þetta eru allt ágætisverkefni en þarna var aukningin. Og í síðustu fjárlögum ykkar þar sem þið lofuðu svo sannarlega öllu milli himins og jarðar, þá fór jafnvel ekki hlutur eins og Perlusamningurinn.