144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem betur fer gefst betri tími til að tala sérstaklega um virðisaukaskattsbreytingarnar og það allt. En mér sýnist nú vera að teikna sig upp að miklu skynsamlegra væri, fyrst menn eru ekkert að fara í neina sérstaka einföldun þannig séð, menn eru ekkert að fækka skattþrepunum í virðisaukaskattskerfinu, að hafa lægra þrepið mjög lágt og hafa þar mjög skýrt afmarkaða nauðsynlega hluti eins og mat og hafa síðan hærra þrepið í 24% eins og sambærilegt er við nágrannalöndin og fara þá með ferðaþjónustuna og annað upp í það. Ég held að það væri langskynsamlegast í þessu og væri forvitnilegt að heyra viðhorf þingmannsins til þeirra hugmynda.

Einu hjó ég eftir. Hann sagði að niðurskurðartímar á Landspítalanum væru liðnir. Það rímar ekki við það sem forstjóri Landspítalans hefur haldið fram. Forstjóri Landspítalans hefur bent á að það vanti um 4% í fjárframlögum til spítalans eða hátt í 2 milljarða, 1,6–1,7 milljarða, til þess einfaldlega að spítalinn geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Ekki byggt upp neitt, það vantar þetta bensín á tankinn til þess eins að spítalinn geti sinnt því sem hann á að sinna. Þetta eru bara harðir útreikningar.

Ef þessir peningar koma ekki, og þeir eru ekki í frumvarpinu eins og það er núna, þarf spítalinn að skera niður í þjónustu sinni. Hvernig getur þá hv. þingmaður sagt, miðað við þessa stöðu, að niðurskurðartímum á Landspítalanum sé lokið?