144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var skorið gríðarlega niður til Landspítalans á árunum eftir hrun. Þó svo að reynt hafi verið að hlífa honum sérstaklega þurfti hann samt sem áður að taka á sig gríðarlegar byrðar. Við erum ekki komin á neinn stað sem getur kallast viðsnúningur í rekstri Landspítalans, við erum ekki búin að bæta honum upp allt það sem starfsfólk þar hefur þurft að fara í gegnum í gríðarlegri aðhaldskröfu.

Mér finnst mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að þó svo að verið sé að bæta í, eðlilega og sem betur fer, framlög til Landspítalans eftir þann gríðarlega niðurskurð, þó það nú væri, að þá er það ekki nóg. Það þarf samt sem áður, ef þetta eru framlögin við fjárlögin núna, að skera niður í þjónustunni. Það er í raun og veru alveg ótrúlegt að það skuli þurfa að gera eftir allt það sem spítalinn hefur mátt ganga í gegnum.