144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er heilmikið gert í því að laga þennan aðstöðumun sem er vissulega fyrir hendi. Við erum með umtalsverða niðurgreiðslu á raforkuhitun, milljarður á ári, eftir minni. Það hefur ýmislegt verið gert en ég vil benda á að það kostar helling að flytja þvottavél frá Reykjavík og út á land og ofan á það bætist virðisaukaskattur, hann er lækkaður, og vörugjald, það er lækkað.

Það er ýmislegt fleira í þessu og ég held að það sé verkefni í nefndinni að fara í gegnum alla þessa plúsa og mínusa og sjá hvort þetta hafi yfirleitt áhrif á búsetu úti á landi, eins illilega og hv. þingmaður lét skína í eða hvort það komi jafnvel út sem hlutlaust eða hagnaður fyrir þá sem búa á landsbyggðinni. Menn eru ekki aðeins að borða mat, það þarf líka að elda hann á eldavél, það þarf að geyma hann í ísskáp o.s.frv. Allt er það með 25,5% virðisaukaskatti í dag ofan á flutningskostnaðinn, þannig að ég er ekkert viss um að þetta sé endilega sterkt.

Af hverju vilja menn búa úti á landi? Mörgum þykir gott að búa úti á landi og auk þess eru víða sumir með ansi góðar tekjur, alla vega þar sem er útgerð. Ég held að þetta frumvarp muni ekki breyta þeirri stöðu. En að sjálfsögðu munum við skoða það og eins áhrif þessa á lágtekjufólk, hvort það sé raunverulega þannig að hinn svokallaði ljóti matarskattur sé svo ljótur. Þegar kemur til vörugjaldalækkun á öll heimilistækin og allt það og lækkun á efra þrepinu er ég viss um að þetta mun ekki koma eins illa út. Þetta er skattalækkun í heildina.