144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson sagði hér fyrr í morgun þegar hann fylgdi frumvarpi sínu úr hlaði að grundvallaratriði væri að aðhaldi yrði áfram beitt í ríkisfjármálum. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson tók einmitt í sama streng í sinni ræðu fyrr í dag.

Ég verð að segja það að ég hef ekki beinlínis séð neinn sem mótmælir því. Snýst þetta ekki þvert á móti um það hvernig þeim fjármunum sem úr er að spila hjá ríkinu er ráðstafað, hvernig þeirra er aflað, hvernig þeim er útdeilt og þar með hvort stofnanir fái nauðsynlegt fé til að reka velferðarsamfélag okkar? Sú spurning hlýtur hins vegar að vakna hvort raunverulegur vilji sé hjá hæstv. ríkisstjórn til að reka velferðarsamfélag sem getur staðið undir nafni.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði í framsögu sinni um að mikilvægt væri að halda sköttum lágum. Ég verð að gera þá játningu hér að ég er almennt frekar hrifin af sköttum. Með þeim rekum við samfélag okkar, við notum þá til að reka menntakerfið, við notum þá til að fjármagna velferðarkerfið, spítalana, heilsugæsluna, löggæsluna og svona mætti lengi telja. Það skiptir hins vegar máli hvernig skattheimtunni er háttað, hvað það er sem er skattlagt og hverjir það eru sem eru látnir bera þyngstu byrðarnar.

Þegar kemur að því að reka samfélag — og hvað er fjárlagafrumvarp í raun annað en handrit að því hvernig sitjandi ríkisstjórn ætlar að reka samfélagið næsta árið? — vil ég helst fylgja þeirri aðferð í megindráttum að fólk leggi til eftir getu og uppskeri eftir þörfum. Þetta er svo sannarlega ekki þannig fjárlagafrumvarp að þar leggi fólk til eftir getu og uppskeri eftir þörfum þar sem auðlegðarskattur er felldur niður og gjöld á stöndugustu atvinnugreinarnar lækkuð, hvað þá þegar við bætist að skattur er hækkaður á matvælum og hluturinn sem sjúklingar þurfa að greiða úr eigin vasa af lyfjum sínum er hækkaður. Við erum ekki bara að tala um eitthvert panodíl sem hver sem er getur keypt úti í apóteki heldur erum við líka að tala um S-merktu lyfin, lífsnauðsynleg lyf sem gefin eru á sjúkrahúsum eða sem afgreidd eru í gegnum apótek sjúkrahúsanna.

Hér í dag hefur talsvert verið rætt um mat og hversu nauðsynlegt það er okkur að fá að borða og svo hins vegar um það að vörugjöld verði felld niður. Sumir hv. þingmenn virðast vera þeirrar skoðunar eða jafnvel þeirrar trúar að þessar aðgerðir muni þegar upp er staðið vinna saman að því að bæta kjör heimilanna. Ég er svo ekki sé meira sagt mjög efins um að svo verði.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson benti á að hér væri til að mynda efnað fólk sem færi til útlanda og keypti þar ýmsar vörur sem fólk sem hefði ekki efni á því að fara til útlanda, geri ég ráð fyrir, yrði að kaupa hér heima og greiddi þá af þeim vörugjöld. Þetta er út af fyrir sig alveg satt og rétt. Staðreyndin er hins vegar sú að því miður er til hópur fólks sem gerir hvorugt, hópur sem þakkar einfaldlega bara fyrir það ef hann á fyrir mat út mánuðinn. Sá hópur mun finna fyrir hækkuðum matarskatti.

Að lokum vil ég taka undir þá hugmynd sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kastaði fram hér í morgun að fjárlagafrumvarpið verði greint út frá því hvaða áhrif það hefur á ólíka tekjuhópa. Mér heyrðist sem hv. þm. Pétur Blöndal vera með álíka hugmynd í ræðu sinni áðan. Þess vegna þætti mér mjög gott ef að lokinni þessari umræðu og frumvarpið fer til nefndar þá gangi nefndin í það að láta greina frumvarpið með þessum hætti.