144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir vandaða og málefnalega ræðu. Hún minntist á orð mín í þessari umræðu, sem mér finnst ekki fara mikið fyrir. Því meira sem ég hugsa um það því óréttlátara finnst mér það að við erum í raun eins og tvær þjóðir í einu landi, þ.e. þjóðin sem fer til útlanda og þjóðin sem fer ekki. Það snýst ekki bara um það að geta keypt eitthvað í útlöndum heldur erum við með þetta fína ríkisfyrirkomulag fyrir okkur sem heitir Fríhöfnin. Ég var á heimasíðu Fríhafnarinnar og þar get ég meira að segja pantað express og ég fæ mjög margvíslegar vörur á allt öðru verði en það fólk sem ekki fer til útlanda.

Ég vona að það sé ekki rétt hjá hv. þingmanni en ég hef áhyggjur af því og ég held að til sé fólk sem hefur allt of lítið á milli handanna. Það er ekkert mál þess eðlis að við leysum vanda allra. En erum við ekki sammála um að það er óréttlátt að hafa þetta fyrirkomulag eins og það er núna, þ.e. að það eru þeir sem hafa minna sem verða að borga meira vegna þess að þeir þurfa að borga vörugjöld; fyrir utan allan hvata fyrir ólöglegan innflutning o.s.frv.

Nú er ekki ólöglegt að versla í Fríhöfninni, það er algerlega löglegt, það er mjög hagstætt. Ef við skoðum kreditkortanotkun Íslendinga í útlöndum þá er það alveg ljóst að við erum frekar dugleg að versla svo mikið er víst. Ekki er langt síðan heilu flugvélarnar fóru sérstaklega í ferðir til ýmissa borga til að fólk gæti verslað.

Mín spurning er þessi: Það er ekkert mál þannig að við leysum vanda allra alla leið en er hv. þingmaður ekki sammála mér um að við erum í það minnsta að koma til móts við fólk sem hefur ekki tækifæri til að kaupa í Fríhöfninni, í útlöndum, með því að afnema þessi flóknu og fullkomlega óskiljanlegu vörugjöld?