144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir spurninguna. Það gleður mig að heyra að hann er meiri sósíalisti en mig grunaði, hann hefur vissulega áhyggjur af afkomu þeirra sem minnst bera úr býtum í samfélaginu. Gaman að við séum sammála um það þó að það sé náttúrlega ömurlegt að staðan sé þannig hjá hluta af fólki.

Þetta snýst um leiðir. Jú, auðvitað viljum við bæta hag allra en þá er spurning hvar réttast sé að byrja. Ríkið hefur ekki endalaust af peningum. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki allan þann aragrúa vörugjalda og skatta sem þar eru til að geta svarað því til hlítar hvort ekki sé örugglega fullt af hlutum þar sem ég mundi glöð vilja fella niður eða breyta gjöldum á, og jafnvel einhver önnur sem mér fyndist að ætti að hækka. Ég verð bara hreinlega að viðurkenna að ég þekki það ekki.

En mér finnst hækkun á skatti á matvælum samt vera slíkt mál að það þurfi að vera í forgangi og ég vil byrja á að hugsa til þeirra sem hafa verstu kjörin. Auðvitað þurfum við að skoða það út frá samfélaginu í heild sinni en mín forgangsröðun byrjar þar.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson má svo gjarnan setjast niður með mér og fræða mig um vörugjöld og alla þá flokka sem þar eru undir því að ég mundi mjög gjarnan vilja verða betur að mér í því og geng mjög fús til þeirra verka.