144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi það misræmi sem hv. þingmaður vísar til, þá vek ég athygli á því sem segir á bls. 197 í fjárlagafrumvarpinu, sem sagt í seinni hlutanum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Vakin er athygli á því hér í tengslum við áform um skattkerfisbreytingar sem kynntar eru í þessum kafla að við frágang á frumvarpi um tekjuráðstafanir varð endanleg útfærsla þeirra breytinga að nokkru leyti önnur en miðað var við á fyrri stigum við frágang tekjuáætlunar fjárlagafrumvarpsins.“

Þetta þýðir að þær hugmyndir sem reifaðar eru í frumvarpinu um breytingar á virðisaukaskattskerfinu endurspegla stöðu þeirrar vinnu í sumar eins og hún þá stóð, t.d. í samráðshópum með ýmsum hagsmunaaðilum. Getur þetta haft áhrif til breytinga á tekjuáætluninni? Já, það verður þá til lækkunar. Það var hins vegar gert ráð fyrir því að þær breytingar sem fjallað er um í fjárlagafrumvarpinu hefðu haft áhrif til lækkunar á tekjum ríkissjóðs um það bil um hálfan milljarð, en allir þessir hlutir koma til endurskoðunar í vetur.

Það sem mun ráða langmestu um uppfærða tekjuáætlun er í fyrsta lagi álagning á lögaðila sem verður núna seint í október eða um mánaðamótin október/nóvember og síðan ný þjóðhagsspá sem kemur í nóvember. Ég ber þá von í brjósti að við þá endurskoðun sem fram fer á þessum tveimur stóru þáttum muni koma í ljós að við eigum eitthvað inni til að hækka tekjuáætlunina, að skattstofnarnir verði enn sterkari en Hagstofan gerði ráð fyrir í sumar.

Að öðru leyti varðandi samgöngumálin þá er það svo sem rakið á bls. 361 hvernig framlög til Vegagerðarinnar eru að þróast. Það er rétt að tímabundin verkefni falla niður en á móti kemur að verið er að setja 850 milljónir í framlag til nýframkvæmda.

Varðandi ferðalög íþróttafélaga þá er það ekki ætlunin (Forseti hringir.) að virðisaukaskattsbreytingarnar leggist á þau. Það er fyrst og fremst verið að hugsa breytingarnar þannig að (Forseti hringir.) við víkkum virðisaukaskattinn út yfir ferðaþjónustu.