144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Síðan var spurt um það sérstaklega hvort verið væri að breyta virðisaukaskattskerfinu til að ná til íþróttafélaganna og gera mótvægisráðstafanir. Því er til að svara að breytingin sem gerð er á virðisaukaskattslögunum tekur til skilgreiningarinnar á fólksflutningum og það var fyrst og fremst verið að horfa til ferðaþjónustunnar. Tekjurnar sem áætlaðar eru af þessu eru um 500 millj. kr. á ári og uppistaðan af því, langmestur ávinningurinn, kemur vegna ferðaþjónustunnar. Að því marki sem ferðalög íþróttafélaganna eru með rútuferðum þá kann að vera að þetta taki til þeirra og það þurfi að taka tillit til þess í jöfnunarsjóðnum. Það er eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að taka til skoðunar í vetur.

Varðandi áhrif á tekjuhliðina þá vek ég athygli á því í fyrsta lagi að við erum hér með heildartekjuáætlun upp á 644 milljarða og til lækkunar á tekjuhliðinni gæti komið, vegna annarrar útfærslu á virðisaukaskattskerfinu, um það bil 2 milljarða tekjutap. Það er slík smátala í heildarsamhenginu að hún verður nánast að teljast innan skekkjumarka. Aðalatriðið er að það er ekki hægt að segja að fjárlögin mundu með þeirri breytingu einni og sér lenda öfugum megin við jafnvægið. Hins vegar er jafnvægið óskaplega viðkvæmt og ég hef aldrei dregið dul á það. Tímapunkturinn til að taka þessa umræðu dýpra er þegar við uppfærum tekjuáætlunina í nóvember. Þá sjáum við miklu betur hvernig stóru tekjupóstarnir standa fram á næsta ár.