144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:40]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er farið að líða á umræðu um fjárlagafrumvarpið sem við ræðum en ég held að það sé samt mjög nauðsynlegt á þessum tímapunkti að fjalla um það sem fram hefur komið og ég hyggst gera það. Í fyrsta lagi vil ég segja og undirstrika hversu gríðarlega miklu máli skiptir að það sé ábyrg stjórn ríkisfjármála. Sá söngur verður aldrei of oft sunginn. Sá árangur sem hefur náðst á síðustu árum í að ná jafnvægi á nýjan leik eftir það áfall sem við urðum fyrir er náttúrlega undraverður á margan hátt. Ég held að mikilvægt sé að við áttum okkur á því hvað það skiptir miklu máli fyrir fyrirtækin og ekki síður fyrir heimilin. Heimilin eru í allt annarri stöðu þegar slíku jafnvægi er náð og við getum farið að horfa til þess að fólk getur gert miklu raunhæfari áætlanir um fjármál sín, um framtíð sína. Það er að byggjast upp aftur, smám saman, aukinn kaupmáttur. Það er aukinn kaupmáttur vegna ráðstafana í ríkisfjármálum, vegna þess að atvinnulífinu gengur betur, vegna þess að það er möguleiki til að fara að lækka vexti o.s.frv. Fólkið mun finna fyrir minni verðbólgu og stöðugleikanum þegar það fer að horfa á lán sín og alla þessa þætti. Þetta getum við aldrei slitið úr samhengi í allri umræðunni um efnahagsmál og ríkisfjármál og því vildi ég hefja ræðu mína á því að rifa þetta upp um leið og ég segi að það fjárlagafrumvarp sem við ræðum hér er ekki síður mikilvægur steinn í þeirri vörðu að byggja aftur öfluga og sterka fjármálastjórn hins opinbera.

Það hefur talsvert verið fjallað um matvæli og matvælaverð og það er gamalkunnug umræða þeim sem hér stendur. Það er í fyrsta lagi að segja að í sjálfu sér er búið að kenna þjóðinni það að matur á Íslandi sé dýr. Ég er ekki endilega sammála því og ég get fært fyrir því ágætisrök að ég tel. Í margs konar samanburði, talnasamanburði sem gerður er, kemur verðlag á Íslandi á matvælum ekki einstaklega illa út þegar við horfum til stærðar landsins, fámennis þjóðarinnar og legu landsins á hnettinum. Ég hef mér til halds og trausts hér tölur frá Eurostat sem staðfesta það og samkvæmt tölunum 2012 og 2013 er matarverð um 16–17% hærra en meðaltal Evrópusambandsins. Það vill svo skemmtilega til, öfugt við það sem oft er haldið fram, að íslensku búvörurnar sem eru innan hinnar hræðilegu tollverndar, sem oft er kölluð svo, standa sig í þeim samanburði miðað við önnur lönd. Við erum um 19% yfir meðalverðlaginu í kjöti og 12% í mjólk, ostum og eggjum. Þar sem við aftur á móti keyrum út af í samanburði á milli landa er í þeim vöruflokkum sem heita föt, skór, raftæki og slíkir þættir og þar skekkja myndina verulega vörugjöldin sem við leggjum á þá vöruflokka. Þess vegna held ég að sú skattkerfisbreyting sem boðuð er samhliða þessu fjárlagafrumvarpi sé gríðarlega mikilvæg, ekki síst til að við komumst í heilbrigðari umræðu um verðlag á Íslandi og þá stöðu þeirra atvinnugreina sem verslun er og framleiðsluiðnaður á Íslandi er o.s.frv.

Þetta vildi ég nefna undir lok þessarar fjárlagaumræðu sem hefur eftir því sem liðið hefur á daginn orðið mjög efnismikil og langtum betri en hún leit út fyrir að vera í upphafi.

Ég undirstrika aftur undir lok þessarar ræðu: Stöðugleikinn sem við höfum náð, þessi afgangur í ríkisfjármálum, þessi lága verðbólga er grundvölluð af ábyrgum ríkisfjármálum en hún er ekki verk stjórnvaldanna einna. Það þurfa margir að sameinast um það og þegar fólk talar um af hverju þetta sé á þennan hátt á Íslandi, allar þessar kollsteypur, öll óvissan, þá byrja breytingarnar kannski bara hjá okkur hverju og einu. Þær byrja á því að við getum sameinast um að taka á og sýna ábyrgð í athöfnum okkar og það er ekki aðeins ríkisvaldið og stjórnvöldin, það er líka atvinnulífið og það er allt þjóðfélag okkar sem verður að sameinast í því.