144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú er ríflegur sólarhringur síðan hulunni var svipt af frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra. Formaður skólameistarafélagsins segist skelfingu lostinn eftir lestur þess og tekur djúpt í árinni að því er varðar viðbrögð við frumvarpinu. Það eru sannarlega ekki einu viðbrögðin sem er að finna í samfélagsumræðunni því að þau eru mikil.

Á þeim stutta tíma sem ég hef hér til að ræða frumvarpið ætla ég að stilka á stóru um þau viðbrögð sem eru að teiknast upp úti í samfélaginu. Er þá fyrst að nefna viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar sem hefur miklar áhyggjur af þessari umtalsverðu hækkun virðisaukaskatts úr 7% í 12% á matvöru og nauðsynjavörum og segir að það sé ekki vænlegt innlegg í næstu kjarasamningsviðræður.

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur Alþýðusambandsins, hefur áhyggjur af því að þetta komi þeim tekjulægstu illa. Þvert á það sem hér hefur verið rætt leggur Ólafur Darri áherslu á að þeir sem eru tekjulægri verja um það bil tvöfalt meira af tekjum sínum til að kaupa mat en þeir sem eru tekjuhærri. Þess vegna kemur þetta verst niður á þeim hópum. Það er alveg sérstakt áhyggjuefni.

Ólafur Darri talar líka um það að tekjulægsta tíundin í samfélaginu verði verst úti við þessar tillögur fjárlagafrumvarpsins, enda er það svo, þegar tölur eru bornar saman í gegnum tíðina, að að jafnaði er það svo að hagur hátekjufólks batnar þegar hægri stjórn er í landinu og byrðar lægri hópanna þyngjast. Það segir sagan okkur einfaldlega. Við getum svo sem talað um einstakar ákvarðanir, en þetta eru meginlínurnar. Þess vegna er hér um að ræða fjárlagafrumvarp þar sem stigið er mjög ákveðið skref til hægri enda svo sem ekki við öðru að búast.

Eins og hér hefur aðeins komið fram eru líka áhyggjur hjá Bændasamtökunum varðandi samkeppnisstöðu innlendra búvara. Það eru áhyggjur hjá verkalýðshreyfingunni varðandi það að skerða bótarétt og að atvinnuleysi minnki sannarlega ekki við að velta byrðunum yfir á sveitarfélögin. Það eru áhyggjur af auknum lyfjakostnaði sem fellur á sjúklinga. Það eru á fjórða hundrað milljónir króna sem á að sækja í vasa sjúklinga.

Krabbameinsfélagið lýsir sérstökum áhyggjum í hádegisfréttatíma dagsins og segir forstjóri Krabbameinsfélagsins, Ragnheiður Haraldsdóttir, fullum fetum að hún hefði talið að komið væri að því að sjúklingum yrði hlíft í þessu fjárlagafrumvarpi. Í fyrra lagði Krabbameinsfélagið fram vandaða skýrslu um greiðsluþátttöku krabbameinssjúklinga í heilbrigðisþjónustunni almennt og benti á að greiðsluþátttakan væri þegar orðin mjög mikil. Þarna eru líka verulegar áhyggjur, virðulegur forseti.

Forstjóri Landspítalans – háskólasjúkrahúss segir að verulega vanti upp á rekstrargrunn spítalans til þess að hægt sé að sinna þeim verkefnum sem spítalanum eru falin.

Eins og sagði hér aðeins í byrjun míns máls er formaður Skólameistarafélags Íslands skelfingu lostinn eftir lestur fjárlagafrumvarpsins og segir að heildarfjárveiting til málefna framhaldsskólans lækki um ríflega einn og hálfan milljarð.

Það er jafnframt ljóst, ef marka má Samtök leigjenda, að í frumvarpinu er ekkert að finna um eyrnamerkt fjármagn til að hefja uppbyggingu á virkum leigumarkaði á Íslandi. Allt eru þetta velferðaráherslur sem beinlínis er verið að draga úr við þetta frumvarp. Það svo sem kemur ekki á óvart. Þetta er allt á kostnað félagslegra þátta og ýtir undir þá umræðu sem hér hefur komið fram að það er gríðarlega mikilvægt að greina þetta frumvarp með tilliti til áhrifa á einstaka hópa samfélagsins.

Ég vil sérstaklega fagna þeim fjölmörgu efasemdarröddum sem hafa hrannast upp í fjölmiðlum undanfarinn sólarhring úr röðum Framsóknarflokksins og vænti þess að unnt verði að hnika frumvarpinu frá þeirri frjálshyggjutilraun (Forseti hringir.) sem hér er uppi.