144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra andsvarið.

Maður er svolítið í vandræðum með orðfærið þegar talað er um að lækka verðlag með því að hækka mat um 11 milljarða. Það er dálítið kúnstugt þegar maður er að reyna að tala saman en hugtökin eru notuð í öfuga átt frá því sem eðlilegt er eða venjulegt er. Ég held að við verðum bara að halda því til haga að þessar tölur sem eru hér frá Alþýðusambandi Íslands og BSRB og SFR og fleiri talsmönnum launþegahreyfingarinnar eru líka studdar rökum og gögnum þar sem segir að hlutfall af útgjöldum í mat sé helmingi hærra hjá lægstu tíundinni en þeirri hæstu.

Hæstv. ráðherra talar um að þetta sé ekki besta leiðin til jöfnuðar, þ.e. að nota virðisaukaskattskerfið til þess að jafna kjör. Gott og vel. Hvaða leið er best að mati hæstv. fjármálaráðherra til að jafna kjör? Telur hann yfirleitt æskilegt og verðugt markmið að jafna kjör? Það er eitt af því sem er notað til að mæla og meta stöðu samfélaga hversu mikill félagslegur jöfnuður er í samfélögum. Yfirleitt hafa hægri stjórnvöld frekar aukið á félagslega gliðnun í samfélögum en hitt. Mér þætti áhugavert ef hæstv. fjármálaráðherra gæti frætt okkur um sína grundvallarskoðun í þeim efnum.

Að því er varðar aukna kostnaðarhlutdeild er svo komið, það er alveg sama hvernig við snúum því og hvernig við rökstyðjum það, að verið er að sækja rúmlega 300 millj. kr. í vasa sjúklinga með þessu frumvarpi og í vasa þeirra sem þurfa á lyfjum að halda. Það er staðreynd sem hæstv. fjármálaráðherra getur ekki vikið sér undan.