144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég er þeirrar skoðunar að tekjuskattskerfið hafi ákveðnu tekjujöfnunarhlutverki að gegna. Persónuafslátturinn er hið félagslega tillit í tekjuskattskerfinu. Það eru einhver ytri mörk á því hversu langt á að ganga í tekjujöfnun með skattkerfunum vegna þess að hættan er sú að hvatarnir verði rangir, að það borgi sig ekki lengur að sækjast eftir því sjálfur að bæta kjör sín vegna þess að jöfnunin í kerfinu tekur það jafnóðum af þér og færir það einhverjum öðrum. Það er þetta gullna jafnvægi sem þarf að finna þarna í milli.

Varðandi gögn frá verkalýðshreyfingunni eða launþegahreyfingunni þá hef ég séð sum af þessum gögnum. Ég hef til dæmis lesið frá ASÍ dæmið um námsmanninn sem tekur helminginn af ráðstöfunartekjum sínum að láni og hefur 100 þús. kr. á mánuði í laun. Ég tók eftir því að ASÍ gerði ráð fyrir því að viðkomandi námsmaður væri að verja 30 þús. kr. á mánuði í mat, 1 þús. kr. á dag. Þetta var dæmi frá ASÍ. Heildarhækkunin sem verður á matvöru er einhvers staðar á bilinu 2,5–3% þannig að áhyggjurnar í því tilviki hafa verið um að matur fyrir námsmanninn mundi hækka um einhvers staðar á bilinu 25–30 kr. á dag. Það var sem sagt málið sem verið var að vekja athygli á.

Það er rangt hjá hv. þingmanni að matur hækki um 11 milljarða. Hlutur matar í hækkun neðra þrepsins er um það bil 2/3. Það má segja að neðra þrepið hækki þannig mat um 7,5 milljarða. Vörugjöldin koma síðan á móti. Það eru 3 milljarðar á matvöru sem eru felldir út, þá standa eftir 3,5 milljarðar. Það er langur vegur á milli þess að tala um 11 milljarða hækkun á mat eða þess sem við erum hér í raun og veru að gera, að afla tekna upp á 3,5 milljarða vegna matvörunnar og gefa það síðan til baka og vel rúmlega það með lækkun á öðrum vörugjöldum og lækkun efra þrepsins þar sem allur meginþorri neyslunnar er. Allur meginþorri (Forseti hringir.) neyslunnar er þar.

Síðan er hægt að lesa allt um það sem við höfum verið að gera í skattamálum (Forseti hringir.) á bls. 69 í þessu hefti. Launþegahreyfingin ætti að taka eftir því að þegar er búið (Forseti hringir.) að slaka út 25 milljörðum til þeirra skjólstæðinga.