144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:12]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega viðkvæmt andrúmsloft sem hæstv. fjármálaráðherra er að tala hér inn í þegar verið er að leggja grunn að trausti sem þarf að vera fyrir hendi þegar gengið er til kjarasamninga. Það er sannarlega ekki eins og sá grundvöllur sé ólaskaður frá fyrri tíð, þ.e. frá því um síðustu áramót þegar menn voru með fyrirheit um það að snerta ekki gjaldskrár en gerðu það síðan. Við þekkjum þau áhrif sem það hafði inn í kjarasamningsumræðuna og inn í verkalýðshreyfinguna. Á því þarf auðvitað að hafa gætur. Mér finnst mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra gangi varlega um þær slóðir.

Það er auðvitað mikilvægt þegar við erum að ræða hér saman að við áttum okkur á því að um er að ræða grundvallarhugmyndafræðilegan ágreining. Meðal annars kemur fram í máli hæstv. ráðherra að hann telji að takmarkanir séu á því hvernig hægt sé að beita tekjuskattskerfinu til kjarajöfnunar, enda hefur komið fram í máli hans áður í bæði tali og texta að hann telji að ráðast þurfi gegn þrepaskiptingu tekjuskattskerfisins, ef ég skil hann rétt. Þá erum við líka með því markmiði hæstv. ráðherra að fjarlægjast Norðurlöndin og að nálgast ríki þar sem félagsleg gliðnun og félagslegur munur er meiri.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leiðrétta mig með það að hækkunin sé 7,5 milljarðar í stað 11, en það eru þá 7,5 milljarðar, virðulegur forseti, sem verið er að leggja á fjölskyldurnar í landinu, mest á þær sem minnst hafa. Það sem kemur svo á móti er sykur og gos og gúmmí (Forseti hringir.) en ekki það sem þjónar lýðheilsumarkmiðum sem hæstv. ríkisstjórn er svo iðin við að nefna (Forseti hringir.) í hátíðarræðum.