144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir mjög góða spurningu og kjarnaspurningu í þessu máli. Við deilum sömu áhyggjum varðandi þá hópa sem gætu lent fyrir utan sviga við það að matvælin hækki sem hluti af þeim vöruflokkum sem bera 7% virðisaukaskatt í 12% samkvæmt frumvarpinu. Við þurfum í þinglegri meðferð að fara í frekari greiningu á því og finna það út hvaða hópar lenda fyrir utan sviga.

Hins vegar er þetta þannig að allar aðgerðirnar sem boðaðar eru snerta okkur öll með einhverjum hætti. Við þurfum að skoða það frekar hvort þetta komi verr niður á einhverjum afmörkuðum hópum og getum þá brugðist við því í gegnum bótakerfið sem þegar er til staðar. Ég hef fagnað því að við höfum komið til móts við aldraða og öryrkja og tel reyndar að það megi bæta verulega í þar á komandi árum og vona að hagvöxtur skapi aukið svigrúm til þess.

Öll þurfum við að borða, háir sem lágir og tekjuháir sem tekjulágir. Þetta þurfum við bara að greina. Það er komið til móts við barnafjölskyldur og ég trúi því að reksturinn sé hvað þyngstur hjá barnafjölskyldum. Það er 1 milljarður sem fer í auknar barnabætur til að koma til móts við þann hóp og ég fagna því. En við þurfum að (Forseti hringir.) sjálfsögðu að fara í frekari greiningar.