144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Mér líst ekki nógu vel á það að lágtekjufólki sé stillt upp við vegg með því að hækka verð á matvælum svo að það þurfi að sækja sér auknar tekjur í gegnum bætur. Mér finnst ekki vera mikil reisn yfir því. Mér finnst það ekki vera góð vinnubrögð að stilla fólki þannig upp að það þurfi alltaf að vera þiggjendur í stað þess að það hafi fulla reisn og geti lifað af því kaupi sem það hefur. Mér hugnast ekki sú aðferðafræði að gera fleiri að einhvers konar bótaþegum þegar þeir ættu að geta lifað mannsæmandi lífi af launum sínum. Ég held að það sé markmið að sem flestir heilbrigðir geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum en þurfi ekki að ganga þann bónarveg að þiggja bætur af því að ríkið tekur þá ákvörðun að hækka matvælaverð.

Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns á því að verið er að skera niður framlög til skattrannsóknarstjóra í þessu fjárlagafrumvarpi. Á fyrra kjörtímabili hófst átaksverkefni milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisskattstjóra til að koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi. Er ekki verið að henda frá sér möguleika á að ná inn skatttekjum og auka þá líka samkeppnisstöðu fyrirtækja gagnvart svartri atvinnustarfsemi? Eigum við ekki frekar að bæta í (Forseti hringir.) þennan málaflokk en skera niður?