144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:27]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttir fyrir andsvarið og spurningarnar. Þetta er einhver misskilningur. Við vorum sammála um það að við þyrftum að greina frekar hvernig þessar skattkerfisbreytingar kæmu niður á mismunandi tekjuhópum. Það voru ekki mín orð að hér ættum við að fara að búa til bótaþega heldur nýta þær lausnir sem við höfum nú þegar. Ég tók sem dæmi að þegar væri búið að bregðast við með því að auka hér í barnabætur. (Gripið fram í: Það eiga ekki allir börn.) — Nei, þess vegna þurfum við að fara í frekari greiningar í þinglegri meðferð á því hvernig hægt er að bregðast við því ef einhverjir hópar lenda fyrir utan sviga í þessum skattkerfisbreytingum. Ég held að við hljótum að geta skilið það.

Í samhengi við þetta langar mig að taka hér upp, af því að það hefur verið rætt um samneysluhlutfallið, að samneyslan eigi að vera eitthvert ákveðið hlutfall af vergri landsframleiðslu. Í samhengi við þetta getur það aldrei orðið markmið í sjálfu sér, ekkert frekar en það að hjálpa þeim sem minna mega sín í gegnum bótakerfi þýði endilega að við þurfum að fara að búa til bótaþega. Það er afbökun á því kerfi sem vorum að ræða í þessu samhengi.

Varðandi skattrannsóknir þá hafa verið birtar tölur um það að hér sé verið að svíkja undan skatti. Ég tel mjög mikilvægt að efla eftirlit á því sviði og að embættið geti nýtt fjármuni í að efla rannsóknir og eftirlit á því sviði. Við getum verið algjörlega sammála um það.