144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[10:32]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli í þessari fjárlagaumræðu fyrir tillögum þeirra málaflokka sem undir ráðuneyti mitt heyra og ég sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra ber ábyrgð á. Þetta eru margir málaflokkar, mætti nefna orkumál, nýsköpun, atvinnumál, atvinnuþróun, viðskipta- og ferðamál. Á heildina litið eru útgjöld til þessara málaflokka í kringum 9,3 milljarðar. Í málaflokkunum var lögð til 1,3% hagræðingarkrafa eins og annars staðar í ríkisrekstrinum og er hún lóð á þá vogarskál sem tryggja á okkur hallalaus fjárlög og í reynd afgang.

Ef við ætlum að standast efnahagslegan samjöfnuð við þær þjóðir sem bestum árangri ná verðum við bæði að hafa hemil á útgjöldum og á sama tíma að hafa dug og kjark til að sækja fram með nýsköpun, bjartsýni og sjálfstraust að leiðarljósi. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er mikilvægt framfaraskref í þá átt.

Framlög til stóru samkeppnissjóðanna tveggja, Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs, eru stóraukin í þessu frumvarpi. Tækniþróunarsjóður, sem heyrir undir ráðuneyti mitt, fær á næsta ári sem nemur 390 millj. kr. hærra framlag en á þessu ári. Árið 2016 er síðan stefnt að því að gera enn betur þar sem áætlað er að auka framlög í samkeppnissjóðina tvo um 2 milljarða. Þetta er í tengslum við stefnumörkun sem unnin hefur verið í góðri samvinnu í Vísinda- og tækniráði. Stórefling Tækniþróunarsjóðs gerir það að verkum að sjóðurinn getur stutt betur við vænlegar viðskiptahugmyndir og fjölgað þeim verkefnum sem komast á legg. Um þessa fjármuni gildir að samkeppni sker úr um það hvaða verkefni hljóta stuðning og hver ekki. Vissulega er lagt mikið undir en munum að hér erum við að byggja mikilsverðar stoðir til framtíðar.

Jafnframt verður áfram staðinn vörður um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki með beitingu skattalegra hvata til að efla rannsóknar- og þróunarstarf og stuðla þannig að bættum samkeppnisskilyrðum slíkra fyrirtækja. Á næsta ári er gert ráð fyrir að nýsköpunarfyrirtæki fái skattfrádrátt upp á 1.280 milljónir samkvæmt fjárlögum og er þetta tæplega 200 millj. kr. hækkun frá fjárlögum þessa árs.

Kerfið var tekið upp tímabundið til reynslu og gildandi löggjöf fellur úr gildi um næstu áramót. Ég vek athygli á því að löggjöfin er á forræði fjármálaráðherra en fjárveitingin á forræði mínu en það er mjög mikilvægt, og samstaða um það, að við tryggjum endurnýjun á þessum mikilvægu lögum.

Umrædd lög auk hækkunar framlaga til samkeppnissjóða eru mikilvæg verkefni stjórnvalda til að stuðla að aukinni fjárfestingu einkageirans í rannsóknar- og nýsköpunarstarfi, en sú þátttaka er algjörlega nauðsynleg til frekari vaxtar og velferðar.

Virðulegur forseti. Fyrr á þessu ári var samþykkt hönnunarstefna fyrir Ísland en það hefur sýnt sig í mörgum nágrannalanda okkar að hönnun getur spilað lykilhlutverk í því að auka verðmæti og þar með efla hagvöxt. Orðum skulu fylgja athafnir og því eru nú lagðar til hönnunarsjóðs 45 milljónir og sjóðnum ætlað umfangsmikið hlutverk.

Aldrei hafa verið lagðir til eins miklir fjármunir og á þessu ári í verndun og uppbyggingu á ferðamannastöðum. Ekki er vanþörf á í ljósi mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna og þess að ferðaþjónustan mælist nú stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er gert ráð fyrir lægri fjárhæð til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í fjárlögum þessa árs. Hér þarf að hafa í huga að venja er að endurskoða þá fjárhæð í meðförum þingsins þegar betri upplýsingar um tekjur af gistináttagjaldi liggja fyrir.

Auk þess er rétt að benda á að unnið er áfram að undirbúningi gjaldtöku í ferðaþjónustunni til að tryggja fjármögnun til framtíðar og verða tillögur þess efnis lagðar fram síðar á þessu haustþingi. Ef fram fer sem horfir og áætlanir gera ráð fyrir mun sú gjaldtaka skila umtalsvert meiri fjármunum til þessa málaflokks en raunin hefur verið hingað til og því full ástæða til að vera bjartsýnn með það.

Ég vil líka vekja athygli á því að fyrr í sumar samþykkti ríkisstjórnin umtalsverða aukafjárveitingu, 380 millj. kr., til þessa málaflokks þar sem tekið var sérstaklega á brýnum og aðkallandi vanda þessa sumars og ekki var krafist mótframlags sem hefur stundum staðið brýnustu verkefnunum fyrir þrifum. Við erum núna að fara yfir þá framkvæmd og hvernig til hefur tekist og ég mun væntanlega óska eftir aðkomu fjárlaganefndar og þingsins í því þegar fyrir liggur hvort öllum þeim fjármunum hefur verið ráðstafað vegna þess að fyrstu vísbendingar benda til að það sé ekki.

Virðulegur forseti. Það er einkar ánægjulegt að fylgjast með þeim vexti sem orðið hefur í gerð erlendra sem innlendra kvikmynda og sjónvarpsþátta á Íslandi. Endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi hafa stóraukist á síðustu árum og er greinin talin hafa víðtæk mælanleg áhrif til dæmis á ferðaþjónustu og verslun, að ekki sé minnst á landkynningu. Stjórnvöld munu halda áfram að styðja við kvikmyndaiðnaðinn með markvissum hætti og í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að fjárveitingar til verkefnisins aukist um 300 millj. kr. og erum við þessa dagana að vinna að mati á þjóðhagslegri hagkvæmni þessa endurgreiðslufyrirkomulags.

Varðandi raforkumál rétt í lokin, þar sem tíminn hleypur frá mér, ber að nefna að ríkisstjórnin hefur það á stefnuskrá sinni að jafna kostnað við dreifingu raforku þannig að landsmenn sitji við sama borð, sambærilegt því sem gerist með vegakerfið og aðra þjónustu sem ríkið byggir upp. Stórt skref í þá átt var þegar tekið við gerð fjárlaga fyrir þetta ár þar sem framlög til jöfnunar kostnaðar við dreifingu raforku voru aukin um rúmar 300 millj. kr. Það hefur þegar skilað sér í umtalsverðum lækkunum á gjaldskrám dreifiveitna í dreifbýli. Til að fylgja því eftir og tryggja fjármögnun verður í byrjun haustþings aftur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku og tilgangur þess er að fjármagna að fullu þennan jöfnuð.

Ég mun svo koma inn í umræðuna síðar til að ljúka yfirferð yfir þessa málaflokka.