144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[10:46]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vek athygli á því að Samkeppniseftirlitið fær rúmlega 400 millj. kr. framlag á fjárlögum. Það að hv. þingmaður skuli ætla að halda því fram að verið sé að veikja Samkeppniseftirlitið þegar slík fjárveiting er hér til staðar er náttúrlega fjarstæða. Það stendur ekki til og ég svaraði því áðan.

Varðandi gjaldtökumálin á ferðamannastöðum vek ég líka athygli á því að það var í tíð síðustu ríkisstjórnar sem svokölluðu gistináttagjaldi var komið á. Vandinn var síst minni þá en hann er núna en samt var það leið síðustu ríkisstjórnar að koma með gjaldstofn sem skilar í kringum 250–270 milljónum á ári. 3/5 af þeim gjaldstofni renna til uppbyggingar á fjölsóttum ferðamannastöðum. Það sjá allir að sú leið er ófær og þess vegna erum við að leggja vinnu og metnað í það að koma hér á laggirnar aðferð sem mun leysa vandann, ekki bara plástra eins og var gert í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Áðan náði ég ekki að svara varðandi jöfnun raforkukostnaðar og þann misskilning sem þar virðist vera á ferð hjá hv. þingmanni. Það sem við erum að fara að gera er að jafna dreifikostnað raforku á milli þéttbýlis og dreifbýlis, jafna hann innan kerfisins. Þetta snertir þá sem nota dreifiveiturnar. Stóriðjan borgar þetta gjald annars staðar, stóriðjan er ekki aðili að þessum dreifiveitum. Stóriðjan borgar tengigjald og spennugjald og alls konar önnur gjöld og er þar að auki með raforkusamninga til langs tíma. Það er því ekki um það að ræða að fara inn í stóriðjusamninga til að jafna innan kerfis sem stóriðjan á ekki aðild að. Það héti skattahækkun, gamaldags skattahækkun, og það er ekki það sem um er að ræða heldur er verið að jafna kostnað á íbúa landsins hvar sem þeir búa.