144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[10:57]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spurði hvenær frumvarpið væri væntanlegt. Ég get upplýst það að ég lagði það fyrir ríkisstjórnarfundi í morgun og það var samþykkt þaðan út þannig að það fer áfram til þingflokka stjórnarflokkanna og verður vonandi tekið hér til umfjöllunar sem fyrst.

Það er ekki alveg rétt að ég hafi ekki viljað skoða það hvort stóriðjan ætti að taka þátt í þessari jöfnun innan dreifiveitnanna. Þvert á móti. Ég skoðaði það mjög vandlega og komst að þeirri niðurstöðu að þessi jöfnun ætti sér stað innan þess kerfis. Stóriðjan, eins og ég hef ítrekað í þessari umræðu, er ekki aðili að því máli. Það var sú niðurstaða sem ég komst að að vel athuguðu máli.

Varðandi frumvarpið og þá sem búa á köldum svæðum í þéttbýli er það rétt að áhrifin eru til hækkunar, en niðurgreiðsluþörf til þeirra í dreifbýli lækkar. Niðurgreiðslum í núverandi kerfi verður beint í auknum mæli til þeirra sem þetta hækkar hjá þannig að það á ekki að hafa áhrif. Enda kemur í ljós að verðlagsáhrif af þessum breytingum eru engin svo fremi sem niðurgreiðslum verði beint í þann farveg að jafna þennan mismun. Það er það sem við höfum að markmiði.

Ég deili því sjónarmiði að þetta er viðfangsefni sem við verðum að leysa. Það er vont að þetta sé búið að vera með þessum hætti í öll þessi ár. Ég held að þverpólitískt samkomulag sé hér á þingi um að finna leiðir til að jafna varanlega mun á húshitunarkostnaði milli þeirra sem eru með hitaveitur og þeirra sem kynda með rafmagni. Það voru mér þess vegna vonbrigði í vor þegar við vorum að takast á um það hvaða mál yrði samþykkt og hver ekki við þinglok hvernig það fór. Ég lagði einmitt til í því augnamiði að reyna að greiða fyrir því að jöfnunargjaldsfrumvarpið kæmist í gegn að við mundum setja nefnd á laggirnar, ég var tilbúin að skrifa það inn í bráðabirgðaákvæðið (Forseti hringir.) á frumvarpinu, sem tæki þessi tvö verkefni, dreifiveiturnar og húshitunarkostnaðinn og fyndi varanlega lausn. Sú nefnd hefði verið (Forseti hringir.) að ljúka störfum núna. Það var hins vegar því miður ekki samþykkt af stjórnarandstöðunni.