144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:11]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil árétta það við formann Þingvallanefndar að ég var ekki að gera lítið úr þeirri nefnd. Ef það hefur falist í orðum mínum biðst ég forláts á því, það var ekki ætlunin. Það sem ég var að tala hér um og taka undir með hv. þingmanni er að við þurfum að tryggja, ekki bara á Þingvöllum heldur annars staðar, að stefnumótunin sé til, að sveitarfélögin, að staðirnir sjálfir séu klárir með teikningar, með skipulag, með allt sem þarf að gerast. Það er ekki bara hægt að segja: Okkur vantar meira fjármagn. Það var upplifun mín á þessu ferðalagi mínu vítt og breitt um landið í sumar að það er ekki bara það. Þá þurfum við að setjast yfir þetta mál betur og koma þessu í betri farveg þannig að við getum það sem við viljum öll, komið úrbótunum á framfæri.

Varðandi Þingvelli er það náttúrlega sá staður í okkar huga, Íslendinga, sem er okkur hvað helgastur. Okkur er ekkert sama. Það getur verið að það taki alltaf langan tíma að komast að samkomulagi um það hvert á að stefna með Þingvelli. Ég þekki það frá setu minni í Þingvallanefnd. Það er gott að heyra að farið er að framkvæma í Flosagjá vegna þess að það sem ég var að segja var að þetta hefði getað farið af stað strax. Það var sagt af þeim sem ráða þar ríkjum. Þegar fjármunirnir voru fengnir þá sögðust menn alls staðar að í þessum verkefnum vera tilbúnir. Á grundvelli þess var þessum fjármunum komið út. Þannig er nú það og það er kannski hvatningin. Ég nefni Þingvelli, en það eru ekki bara Þingvellir þannig að ég er ekki að klaga hér þessa staði en það er hægt að gera betur og nýta það fjármagn sem þó (Forseti hringir.) er búið að koma út í þessi verkefni.