144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ola Borten Moe hafði að vísu ekki heyrt orð hæstv. ráðherra þar sem hún hvatti þingmenn og þá sem fjölluðu (Iðnrh.: Ég sagði það …) um sæstrengsmálið til þess að fara sér hægt í málinu. (Iðnrh.: Ég sagði það á…) Menn geta verið á móti því máli og séð alls konar annmarka á því eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur gert og fært skýr rök fyrir sinni afstöðu, en menn geta ekki sett málið í hægagang. Það hefur þessi hæstv. ráðherra gert alveg eins og málefni ferðaþjónustunnar hafa verið sett í hægagang.

Nú er það svo að ráðherrar ferðast með misjöfnum hraða, sumir með hraða snigilsins eins og við hv. þm. Vigdís Hauksdóttir þekkjum kannski úr fortíðinni, en það er hins vegar ekki hægt þegar menn hafa talað eins og hæstv. ráðherra gerði hér á sínum tíma og gagnrýndi seinagang og skort á stefnu. Hvað er að gerast hjá henni í þessu mikilvægustu atvinnugrein okkar? Ekki neitt. Af hverju þurfti þennan plástur síðasta sumar? Vegna þess að hæstv. ráðherra sýndi skort á samráði. Hún var að dedúa og bauka með viðkvæman málaflokk í sínu ráðuneyti og gleymdi að tala við ferðaþjónustuna. Þess vegna kom hún ekki málinu fram. Hvað er að gerast núna? Í þessari umræðu hefur hún gefið upp tvær tímasetningar á því hvenær frumvarpið á að koma fram um náttúrupassann eða hvað hún kallar það. Í upphafi umræðunnar var það innan nokkurra mánaða. Þegar hv. þm. Björt Ólafsdóttir gekk á hana þá var það væntanlegt síðar í þessum mánuði.

Ég held því fram að hæstv. ráðherra viti ekkert hvert hún er að fara í þessum málum. Ég er þeirrar skoðunar að það verði málinu því miður fjötur um fót hvernig hún hefur haldið á því. Innan hennar flokks er ágreiningur um stefnu hennar.

Svo vil ég segja það af því hæstv. ráðherra sagði hér í umræðu um Þingvelli áðan: Við þurfum að ræða hvert á fara með Þingvelli. Ég vil ekkert fara með Þingvelli. Ég vil hafa Þingvelli þar sem þeir eru undir góðri forustu Þingvallanefndar. Svo að það sé sagt af minni hálfu vegna þess að mér er annt um svæðið (Forseti hringir.) þá hefur þessi Þingvallanefnd staðið sig vel í málefnum svæðisins.(Gripið fram í.)