144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:28]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi út af þriðju spurningu hv. þingmanns um jöfnun flutningskostnaðar beini ég því til hv. þingmanns að spyrja samráðherra minn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um þetta vegna þess að þessi liður heyrir undir hann. Við erum í þeirri aðstöðu að vera með tvo ráðherra í þessu ráðuneyti og ég verð af því tilefni að segja alveg eins og er, og hér situr formaður fjárlaganefndar og við þurfum liðsinni hv. þingmanns í því, að það þarf að gera framsetninguna í fjárlögum skýrari hvað þetta varðar. Það er óþægilegt fyrir þingið og þá sem sýsla með fjárlögin, það er óþægilegt fyrir okkur að aðgreiningin sé ekki betri en þetta. Ég beini þeim athugasemdum til þingmannsins.

Samkeppniseftirlitið, ef mig misminnir ekki og nú þarf ég að athuga það, sætti ekki hagræðingarkröfu og var eina stofnunin á mínu málasviði sem fékk hækkun á framlögum í fyrra. Við höfum staðið við bakið á Samkeppniseftirlitinu í þeim mikilvægu verkefnum sem það sinnir. Núna erum við að setja aukafjárveitingu í þetta nýja verkefni sem ekki síst er kallað mikið eftir af hálfu atvinnulífsins og við erum sannfærð um að sé samfélaginu öllu til bóta að við getum verið að vinna að þessum málum í sameiningu. Það þýðir ekki, ég ítreka það sem kom fram hér áðan í samtali mínu við hv. þm. Árna Pál Árnason, að við séum að draga tennurnar úr Samkeppniseftirlitinu með einum eða neinum hætti. Rannsóknarheimildir þess og verklag er óbreytt og ég treysti stofnuninni mætavel til að halda áfram sínu góða starfi.