144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:36]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef farið ítarlega yfir það hér í þessari umræðu hvernig þessi fjárveiting var til komin. Mér vannst ekki tími áðan til að svara hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni varðandi þá fjármuni sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði áætlað í hinni svokölluðu fjárfestingaráætlun til þessa málaflokks og við tókum niður í fjárlagagerðinni í fyrra eins og margt annað, sem voru mörg afar góð mál, vegna þess að markmið okkar um hallalaus fjárlög og fjárlög með afgangi var æðsta markmiðið í þeirri fjárlagavinnu.

Nú sjáum við að það er rýmra svigrúm og annað, og það var liður í þessu, við vorum að vinna að framtíðarlausn í gjaldtökumálum en, eins og ég hef útskýrt hérna, voru þau áform lögð í bið fyrir vorið.

Þess vegna var metið að það þyrfti að koma til aukafjárveiting og samþykkt, eins og fjölmargar ráðstafanir sem samþykktar eru í ríkisstjórn með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þetta var skoðað í fjárlaganefnd í sumar, kallað eftir skýringum og eftir að þær skýringar voru veittar var ekki gerð athugasemd við þetta.