144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina nokkrum spurningum til hæstv. forsætis- og dómsmálaráðherra í báðum hlutverkum sem hann gegnir. Fyrst af öllu hlýtur maður að staðnæmast við þá hækkun á framlögum til yfirstjórnar ríkisins sem hægt er að sjá í fjárlagafrumvarpinu, áframhaldandi fjölgun í aðstoðarmannaher forsætisráðherra og kemur fram í fjárlagafrumvarpi að þeir eigi að teljast 17 núna, aðstoðarmennirnir, á sama tíma og áfram er haldið að sverfa að framhaldsskólum, þjónustu við atvinnuleitendur og auknar álögur eru lagðar á sjúklinga í lyfjakostnaði.

Ég hlýt að spyrja hvernig þetta samrýmist hvert öðru, hvert innbyrðis samræmi er hér og hvernig forsætisráðherra getur sleppt því að ganga á undan með góðu fordæmi og láta þá eitthvað yfir sig ganga ef hann er að krefjast aðhalds af öðrum og aukinna álaga á almenning.

Hér kemur hæstv. dómsmálaráðherra fram í fyrsta sinn frá sameiningu í innanríkisráðuneytinu og það verður að segjast alveg eins og er að þessi tilbúnaður er mjög klúðurslegur. Í lok ræðu sinnar sagði hæstv. ráðherra að það þyrfti heildarstefnumörkun um réttarvörslukerfið. Ja, þessi klúðurslega sprenging á innanríkisráðuneytinu tætti réttarvörslukerfið í sundur. Núna er það undur orðið að fullnusturéttarfar er á öðrum stað en dómstólar, fullnusta refsinga á öðrum stað en lögregla og dómstólar. Það mundi enginn heilvita maður sem er annt um réttarvörslukerfið sem slíkt haga skipulagi dómsmálaráðuneytis og innanríkisráðuneytis með þessum hætti ef mönnum gengi það til að skapa gott stjórnkerfi. Hér gengur mönnum allt annað til og það er þessari ríkisstjórn til mikils vansa hvernig hún hefur gengið á svig við hefðbundin sjónarmið um stjórnfestu.

Það stingur í augun hvernig gengið er fram gagnvart sérstökum saksóknara. Menn eru óhræddir við að skerða við hann fjárveitingar. Auðvitað voru þær í upphafi miðaðar við tímabundið eðli starfsins en þær hafa verið dregnar saman sem nemur 500 milljónum á árinu 2013, 300 milljónum á árinu 2014 og nú 425,5 milljónum á komandi fjárlagaári. Á sama tíma er sagt að engin framtíðarstefna hafi verið mörkuð um embættið.

Það eina sem embættið fær því að heyra er að það skuli verða sorfið að því. Hvaða skilaboð eru það til starfsfólksins? Hvaða skilaboð eru það um að menn meti einhvers alvörurannsóknir á efnahagsbrotum? Þegar þetta er síðan lagt saman við aðförina að Samkeppniseftirlitinu sem ég rakti hér áðan og minnkandi fjárheimildir til skattrannsókna blasir við sú mynd að ríkisstjórnin hefur hafið aðför sína að hinum marghataða eftirlitsiðnaði og vill gera allt sem mögulegt er til að forréttindastéttirnar í landinu sem hún (Forseti hringir.) hugsar um alla daga fái í friði að fara sínu fram án nokkurs eftirlits eða aðhalds.