144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. forsætisráðherra út af sameiginlegu áhugamáli okkar sem lýtur að friðun húsa, hvernig þau mál birtast í fjárlagafrumvarpinu, og einnig út af málefnum græna hagkerfisins.

Nú mundi ég, en fletti því þó upp til að staðfesta það, að hæstv. forsætisráðherra studdi þá þingsályktunartillögu sem var samþykkt 2012 um græna hagkerfið, og raunar greiddu allir viðstaddir þingmenn því atkvæði sitt, og líka tiltölulega nýjum lögum um menningarminjar sem nú heyra, að minnsta kosti að hluta, undir hæstv. forsætisráðherra og þar undir heyrir húsafriðun.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, í ljósi þess að framlög til húsafriðunarsjóðs voru mjög aukin hér, til að mynda talsvert í tengslum við fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar enda mjög atvinnuskapandi leið til að verja fjármunum; var í 217 milljónum 2013. Húsafriðunarsjóður hafði auðvitað verið til og fjárlaganefnd hafði líka veitt fjármuni til þessa verkefnis en þá hafði verið tekið fyrir þær veitingar og allar fjárveitingar fóru í gegnum húsafriðunarsjóð.

Sjóðurinn var svo róttækt skorinn niður í fyrra og fór niður í 45 milljónir. Hins vegar var einhverjum fjármunum varið, af hálfu hæstv. forsætisráðherra, af öðrum liðum til húsafriðunarverkefna. Ég ætla ekki út í þá umræðu hér en ég sé hins vegar að þessi sjóður er nú einungis aukinn upp í 56 milljónir, sem er ekki bara langt fyrir neðan það sem hann var 2013 heldur líka það sem hann var á árunum áður þegar hann var yfir 100 milljónir. Það er því ekki bara fjárfestingaráætlunin sem útskýrir þennan mun heldur er þetta líka talsverður niðurskurður. Á móti kemur að rætt er um að 133 milljónir séu hér á liðnum græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl.

Hæstv. forsætisráðherra hefur boðað lagafrumvarp um þau málefni væntanlega nú á haustönn. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Gerir hann ráð fyrir því að húsafriðunarnefnd fari áfram með þá fjármuni sem veitt verður til húsafriðunar og tengjast þá hugsanlega að einhverju leyti hinum nýja lagaramma sem boðaður hefur verið um vernd sögulegra og menningartengdra byggða. Og hvað sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að hátt hlutfall af þessum 133 milljónum renni í þingsályktunina um græna hagkerfið sem tengdist ekki húsafriðun heldur laut að orkunotkun, orkuskiptum, breyttum áherslum, grænum fjárfestingasjóði o.fl. — bara svo að við áttum okkur á þessu því að þetta er ekki sundurliðað í fjárlagafrumvarpinu. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur að minnsta kosti á fyrirætlunum hæstv. forsætisráðherra í þessum efnum til þess að við getum tekið afstöðu til þessa máls í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. hvað mun nákvæmlega renna til verndar sögulegra og menningartengdra byggða, hvað nákvæmlega í græna hagkerfið og hvort húsafriðunarsjóður verður þá á einhvern hátt innlimaður í (Forseti hringir.) þetta nýja fyrirkomulag.