144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að verða að gera alvarlegar athugasemdir við framgöngu hæstv. forsætisráðherra í þessari umræðu. Hann er hér á dagskrá eftir samtal þingflokksformanna og ósk þingflokksformanna, bæði sem forsætis- og dómsmálaráðherra. Hann hefur sjálfur haft að því frumkvæði að flytja málaflokka til sín, öfugt við fyrri forsætisráðherra sem hafði ekki á sinni könnu afmarkaða málaflokka. Í fyrra var mennta- og menningarmálaráðuneytið brotið upp og ákveðin hugðarefni hæstv. forsætisráðherra flutt til hans, húsafriðun til dæmis og þjóðmenningarmál og annað slíkt. Það er fullkomlega eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra svari hér fyrir þau fagmálefni sem heyra undir hann, jafnt í forsætisráðuneyti sem í dómsmálaráðuneyti. Það er full ástæða til þess að ganga eftir því að hann svari í samræmi við það upplegg sem er á þingdagskránni, að til andsvara sé forsætis- og dómsmálaráðherra.

Það er erfitt að kljúfa hæstv. forsætisráðherra upp með einhverjum sérstökum hætti, hann er hér til svara á þeim forsendum sem hann hefur sjálfur skapað með verkaskiptingu sem hann hefur sjálfur ákveðið í eigin ráðuneyti. Hann verður að taka afleiðingunum af þeirri verkaskiptingu sem hann ákveður milli ráðherra.