144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Til að leysa úr þessu segir samkvæmt reglum þeim sem um þessa umræðu gilda að a) hér skuli vera fagráðherrar og b) þeir ráðherrar sem óskað er eftir af þingmanni. Hér með er óskað eftir því að forsætisráðherra verði til svara um sinn málaflokk. Ef hann vill gera það síðar á deginum þá hann um það, en það er nóg af þingmönnum hér til þess að óska eftir því samkvæmt lið b.

Ég verð hins vegar að segja að það er ákveðin yfirlýsing af hálfu forsætisráðherra að hann vilji ekki ræða fjölgun aðstoðarmanna sinna, meðferð hans á húsaverndarpeningum, græna hagkerfið og annað þess háttar hér í ræðustólnum. Það er náttúrlega vegna þess að hann treystir sér illa til þess.

Ég verð líka að segja að mér þykir gæta óvenjumikils virðingarleysis af hálfu forsætisráðherra í garð formanna annarra stjórnmálaflokka. Oft skiptumst við harkalega á skoðunum hér í þinginu en að forsætisráðherra og formaður stjórnmálaflokks neiti tveimur formönnum stjórnmálaflokka í röð um það að virða þá svars er óvenjumikil lítilsvirðing sem einn formaður (Forseti hringir.) sýnir öðrum. Ég held að það sé ekki hjálplegt við að auka trúnað á stjórnmálum og traust á þessari stofnun.