144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að forseti sé búinn að úrskurða um það að hér eru einungis fagráðherrar til svara heldur stjórnarandstaðan áfram að reyna að breyta dagskránni.

Virðulegi forseti. Ég held að grípa verði hér tafarlaust aftur í taumana og gefa út yfirlýsingu út á hvað þessi dagskrárliður gengur. Samkomulag var um það á milli þingflokkanna að þessi umræða færi fram, að fagráðherrar væru hér og sætu fyrir svörum og svöruðu spurningum sem þingmenn hefðu. Stjórnarandstaðan heldur samt áfram að gera tillögur að dagskrárbreytingu án þess svo sem að vera með hana formlega, heldur kemur hún hér fram og biður um að dagskránni verði breytt — og hvað, virðulegi forseti? Ég skora á forseta þingsins að koma aftur með þá yfirlýsingu sem var gefin hér fyrir um 10, 15 mínútum út á hvað þessi dagskrárliður gengur og bið forseta um að ítreka það svo stjórnarandstaðan þurfi ekki að halda áfram að reyna að breyta boðaðri dagskrá.