144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi finnst mér það náttúrlega bara lýsa ótrúlegum skorti á auðmýkt og virðingu gagnvart þingstörfum að svara ekki einfaldlega þessum spurningum. Þetta eru fullkomlega málefnalegar spurningar, brenna á mörgum og varða það sem hæstv. forsætisráðherra er að gera. Á maður að draga þá ályktun að hæstv. forsætisráðherra vilji ekki svara þessum spurningum? Það er alvarlegt og það er þá ekki síður alvarlegt ef maður á að draga hina ályktunina að hann geti það ekki.

Mér finnst það svona alveg burt séð frá þingsköpum standa upp á hæstv. forsætisráðherra að afsanna það að hann annaðhvort vilji eða geti ekki svarað þessum spurningum.

Svo þetta með fagráðherra. Húsasmíði er fag, að mínu viti, og stór hluti húsasmíði á Íslandi, alla vega upp að því marki sem húsasmíði varðar hið opinbera, er kominn undir forsætisráðuneytið, endurgerð gamalla húsa (Forseti hringir.) og endurreisn ýmissa rétta og alls konar hluta. Þar með er einfaldlega (Forseti hringir.) forsætisráðuneytið orðið á augljósan hátt fagráðuneyti.