144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla hér eftir sem hingað til að láta vera að svara hefðbundnum skætingi hv. þingmanns nema hvað ég verð þó að setja út á að hann skuli vísvitandi stilla málum þannig upp að verið sé að draga úr almennum framlögum vegna kynferðisbrota. Þetta er einfaldlega ekki rétt og hv. þingmaður veit betur.

Eins og hv. þingmaður kom reyndar inn á sjálfur var sett af stað sérstakt átak til að takast á við aukið álag í þessum málaflokki. Það var gert ráð fyrir að það stæði í ákveðinn tíma á meðan verið væri að vinna á þeim stabba eða því álagi sem fylgdi óvenjumiklum fjölda mála. Nú hefur það tekist í samræmi við það sem lagt var upp með. Þar af leiðandi er búið að framkvæma þetta átak sem lagt var í í samráði ólíkra ráðuneyta. Það er búið að skila árangri. Hins vegar munu menn að sjálfsögðu halda áfram að leggja áherslu á þennan viðkvæma málaflokk og það að taka á honum. Nýr lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hefur sérstaklega lýst því yfir að þetta verði forgangsmál.

Hvað varðar fjárveitingar til lögreglunnar er nú aftur gert ráð fyrir 500 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til löggæslumála, ekki hvað síst til þess að fjölga lögreglumönnum. Í samræmi við yfirlýsingu lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins mun það örugglega nýtast vel til þess að halda áfram að takast á við þennan málaflokk, en átakið sem ráðist var í til skamms tíma hefur þegar skilað árangri.