144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fara mjög varlega í yfirlýsingum um þennan viðkvæma málaflokk en segi það eitt að það kemur mér ákaflega mikið á óvart, hæstv. dómsmálaráðherra, ef ekki er lengur átaks þörf í þeim málum sem varða kynferðisbrot gegn börnum. Í velferðarráðuneytinu, hjá hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur, virðist mér hljóta að hafa verið önnur niðurstaða fyrst hún heldur áfram inni þeim framlögum sem sneru að hennar stofnunum. Ég bið hæstv. ráðherra að skoða þetta alveg sérstaklega og gæta vel að því að þær stofnanir sem á þessum málum eigi að taka séu sannarlega með næga fjármuni. Ég veit að það er góð samstaða um það í þinginu að þannig eigi það að vera og ég árétta bara að ráðherrann fylgi eftir þeirri embættisskyldu sinni að sjá svo til að það séu nægir fjármunir til ráðstöfunar í þessi verkefni.

Ég árétta spurninguna um Landhelgisgæsluna og síðan þann almenna niðurskurð til löggæslunnar sem mér sýnist að bara hjá þessum þremur embættum, ríkislögreglustjóra, lögreglunni á Suðurnesjum og lögreglunni hér á höfuðborgarsvæðinu, nemi rétt tæpum 100 millj. kr. Það hljóta að vera fjármunir sem þessar lykilstofnanir okkar í öryggismálum munar um og sérkennilegt að nú þegar fé vex einmitt í ríkissjóði, þegar landsframleiðslan er að vaxa enn eitt árið, sé klipið af þessum stofnunum og Landhelgisgæslunni sömuleiðis.