144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:29]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hefði haldið að jafnvel hv. þm. Helgi Hjörvar mundi sleppa því að nota málefni eins og kynferðisbrot gagnvart börnum sem bitbein í umræðu um fjárlög á mjög óeðlilegan hátt.

Eins og ég lýsti áðan var ráðist í átaksverkefni vegna mikils fjölda mála. Það var sett í það ákveðið fjármagn sem síðasta ríkisstjórn mat hversu mikið þyrfti að vera. Það reyndist rétt hjá síðustu ríkisstjórn að matið á fjárþörfinni dugði til þess að vinna á þessum uppsafnaða fjölda mála. Þar með lauk þeirri fjárveitingu á þeim tíma sem síðasta ríkisstjórn hafði gert ráð fyrir en að sjálfsögðu verður haldið áfram að leggja áherslu á þennan málaflokk. Ég lýsti því áðan að nýr lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu mundi leggja sérstaka áherslu á þennan málaflokk, leyfa honum að hafa forgang og nýta þá væntanlega fjármagn í samræmi við það.

Svo ég svari aftur spurningunni um fjárveitingar til löggæslumála hefur verið í innanríkisráðuneytinu, eins og öðrum ráðuneytum, almenn 1,5% hagræðingarkrafa en það er hins vegar bætt sérstaklega gagnvart löggæslumálunum með 500 millj. kr. aukaframlagi þannig að í ár, rétt eins og í fyrra, mun löggæslan ekki þurfa að ganga í gegnum sams konar aðhald eða sams konar skerðingar og aðrir málaflokkar.