144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Fyrir um tveimur árum voru gerðar breytingar á fyrirkomulagi 1. umr. fjárlaga. Það var hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson, sem átti lengi sæti í fjárlaganefnd, sem lagði til þær breytingar og það var meirihlutavilji í þinginu til að gera þær. Markmið hæstv. ráðherra, þáverandi hv. þingmanns, var að dýpka og bæta umræðuna um fjárlög á Alþingi og fjölga þeim þingmönnum og ráðherrum sem tækju beinan þátt í henni. Ég verð að fara fram á það, ekki einu sinni í anda róttækrar rökhyggju heldur almennrar skynsemi, svo að við höldum okkur aðeins á jörðinni, að forseti endurskoði þessa ákvörðun þannig að þau faglegu málefni sem heyra undir forsætisráðherra verði ekki undanskilið umræðum (Forseti hringir.) sem þessum eftir því hvað forsætisráðherra hverju sinni kann að finnast eðlilegt að heyri fram á ráðuneyti hans. Ég fer hér með fram á það, herra forseti.