144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst það alvarlegt mál fyrir þingið að einn fagráðherra, ráðherra menningararfsins, neiti að svara fyrirspurnum þingmanna. Mér finnst það fremur alvarlegt og það að hæstv. forseti hafi sagt áðan að hér væru einungis fagráðherrar til svara svarar ekki þeirri spurningu af hverju þessi hæstv. fagráðherra neitar að svara. Mér finnst það satt að segja einkennilegt.

Ég veit að hæstv. forsætisráðherra var í lófa lagið að svara spurningum mínum hér áðan. Væntanlega er hann plan í málaflokknum, ég reikna með því. Mér finnst það nokkuð alvarlegt fyrir Alþingi Íslendinga að einstakir fagráðherrar geti sleppt því að svara hér. Það finnst mér mjög skrýtið. Mér finnst eðlilegt að forsætisnefnd taki það til umræðu því að þetta hleypir auðvitað upp þeirri spurningu að hægt sé að færa málaflokk undir eitt ráðuneyti ef menn vilja ekki ræða hann. Þá er botninn dottinn úr þessari umræðu.