144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er að verða nokkuð sögulegt hér og kemur svo sem ekki á óvart ef litið er til samskipta hæstv. forsætisráðherra við þingið það sem af er ríkisstjórnarsetu hans. En ég verð að segja að það var óþarfi, fannst mér, að þessi uppákoma skyldi verða.

Ég ætlaði að spyrja um græna hagkerfið, ég ætla að hlífa forsætisráðherra við því. Ég ætlaði að spyrja um nokkur atriði varðandi menningararfinn, ég ætla líka að hlífa forsætisráðherra við því, án þess að ég ætli að reyna að meta ástæður þess að hann sé ekki tilbúinn til að svara fyrir þau mál önnur heldur en beinlínis þau rök sem hann hefur sjálfur nefnt með því að vísa í formsatriði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að hér hafa orðið nokkur orðaskipti um tímabundið framlag til að tryggja úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota — og það er sannarlega rétt, sem kom fram í svörum hæstv. ráðherra, að hér er verið að tala um að vinna á uppsöfnuðum fjölda mála. En ég spyr vegna þess að það kemur ekki fram í texta frumvarpsins: Liggur fyrir mat á því að ekki sé lengur þörf fyrir þetta átak? Liggur fyrir mat á því að við séum komin þar með skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota og markvissar forvarnaaðgerðir og ekki sé þörf fyrir sérstakt fjárframlag í þágu slíks átaks?

Eins og hæstv. forsætisráðherra veit er sá máti mjög gjarnan hafður á að sett er tímabundið framlag í verkefni af þessu tagi. Síðan krefst það nýs mats á þörfinni hvort því verkefni er haldið áfram eða ekki. Ég spyr hæstv. ráðherra dómsmála hvort slíkt mat hafi farið fram.

Svo er það auðvitað þannig að hér er verið að ræða eins og eitt fjárlagafrumvarp og ég, sem hef horft á stjórnmál lengur en ég eiginlega kæri mig um, alveg frá því að ég man eftir mér, lærði það nú þannig að þegar komið er að því að menn styðji ekki fjárlagafrumvarp þá styðji þeir ekki lengur ríkisstjórnina. Í forsíðufrétt í Fréttablaðinu í morgun kemur fram að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, sem er ekki bara þingmaður Framsóknarflokksins heldur sérlegur aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra, segir að Framsóknarflokkurinn í heild, og þá væntanlega þingflokkur Framsóknarflokksins, hafi verið með fyrirvara á fjárlagafrumvarpinu. Mig langar í fullri auðmýkt að biðja hæstv. dómsmála- og forsætisráðherra að svara þinginu um það hvort svo sé, hvort gjörvallur þingflokkur Framsóknarflokksins sé með fyrirvara á fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra.