144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að ítreka það sem ég hef nefnt hér áður að ég er það mikill þingræðissinni að ég vil bera virðingu fyrir þingsköpunum og þeim ákvæðum sem gilda um umræðu í þinginu í öðrum lögum.

Það kemur skýrt fram í þingsköpum, 93. gr. ef ég man rétt, að ef þingmenn víkja með öllu frá því umræðuefni sem verið er að ræða á tilteknum fundi sé það vítavert, þá skuli hæstv. forseti þingsins gera hv. þingmanni grein fyrir því að hann hafi vikið frá efni umræðunnar og að það sé vítavert.

Það er kannski líka ástæða til að útskýra það fyrir hv. þingmönnum í ljósi mikillar umræðu hér, þegar á einum af fyrstu dögum nýs þings, um fundarstjórn forseta að dómsmálin heyra ekki undir forsætisráðuneytið. Það virðist vera einhver misskilningur (Gripið fram í.) hvað það varðar í ummælum hér þegar talað er um að verið sé að sölsa málaflokka undir dómsmálaráðuneytið og dómsmálin nefnd þar á meðal. Dómsmálin heyra áfram undir innanríkisráðuneytið.

Hvað varðar hins vegar önnur mál er það auðvitað ekkert nýtt að stórir mikilvægir málaflokkar, jafnvel jafn mikilvægir og húsverndarmál, heyrir undir forsætisráðuneytið.