144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:43]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega spurningu. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni, og ég held pírötum almennt, að hlutir eins og friðhelgi einkalífs og prinsippatriði í réttindum borgaranna gagnvart yfirvaldinu sé eitthvað sem menn verði alltaf að vera á varðbergi fyrir, þurfi alltaf að fylgjast með hvernig er framfylgt og vera tilbúnir til þess að verja út í ystu æsar, svoleiðis að ég er mjög feginn að fá þessa spurningu.

Hvað varðar megininntak spurningarinnar um hvort þetta sé til athugunar er það svo að verið er að vinna að löggæsluáætlun fyrir landið allt sem gert er ráð fyrir að ráðherra muni leggja fyrir þingið núna í haust, eða a.m.k. í vetur. Þar er tekið á öllum þessu. Það er tekið á réttaröryggi, það er tekið á samspili rannsókna og saksókna, dómstóla og fullnustu meira að segja, fullnustu dóma, og starfsumhverfi lögreglunnar, m.a. litið á menntun og starfsaðferðir og ég geri ráð fyrir að menn muni skoða hluti eins og kjör og aðrar vinnuaðstæður lögreglu.

Loks tek ég undir með hv. þingmanni að auðvitað er æskilegt að hér í þessu samfélagi sem við viljum halda tiltölulega afslöppuðu, ef svo má segja, sé löggæsla eins mild og kostur er, að menn velji þær mildustu leiðir sem fyrir hendi eru og líklegastar eru til að skila árangri.