144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri hér grein fyrir heilbrigðishluta fjárlagafrumvarpsins. Þá er fyrst til að taka að við gerð fjárlaga fyrir þetta ár var þeim tilmælum beint til ráðuneyta að reyna að leita leiða til að hagræða í rekstri sínum, eðlileg og sjálfsögð ósk. Hagræðingarkrafan sem var sett á heilbrigðishlutann nam um 1,8 milljörðum kr. Jafnframt þeirri hagræðingarkröfu var útgjaldasvigrúmið aukið til að mæta veikleikum í rekstri og efna til nýrra verkefna eftir atvikum. Í meðförum okkar í heilbrigðisráðuneytinu var niðurstaðan sú að af þessari 1.800 millj. kr. hagræðingarkröfu ganga 325 milljónir eftir, en rekstrargrunnur annarra fjárlagaliða er styrktur og síðan eru allar tímabundnar fjárveitingar sem Alþingi setti inn í fjárlögum ársins 2014 endurnýjaðar.

Heildarniðurstaðan í heilbrigðismálum samkvæmt frumvarpinu er 142,9 milljarðar kr., rétt tæpir 143 milljarðar kr. Það þýðir hækkaðar fjárveitingar til heilbrigðismála frá fjárlögum þessa árs upp á rúma 5,3 milljarða kr. Þá er vert að hafa í huga að breytingin á fjárlögum milli 2013 og 2014 fyrir þetta ár var rúmir 10 milljarðar kr. þannig að á þessum tvennum fjárlögum sem nú liggja fyrir, fjárlögum ársins 2014 og frumvarpinu fyrir 2015, er gert ráð fyrir innspýtingu upp á 15 milljarða kr. rúma til heilbrigðismála.

Í fjárlagagerðinni fyrir árið 2014 og í meðförum Alþingis á fjárlagafrumvarpinu haustið 2013 var við afgreiðslu lögð höfuðáhersla á að styrkja rekstrargrunn stóru sjúkrahúsanna. Meðal annars var sett fram áætlun um tækjakaup, að mæta þörf fyrir þau. Þeirri áætlun er fylgt eftir í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og fé til tækjakaupa á Landspítala – háskólasjúkrahúsi verður samkvæmt frumvarpinu núna á næsta ári 1.445 millj. kr. og tæpar 200 millj. kr. á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Styrking á rekstrargrunni í fjárlögum næsta árs er varin, þ.e. við látum allar fjárveitingar halda sér og bætum örlitlu við, bæði á Landspítalanum og á Akureyri, en við gerum ráð fyrir að útgjöldin til þessara tveggja stofnana hækki um 8 milljarða á milli fjárhagsára 2014 og 2015.

Stærsta og eitt brýnasta verkefnið sem við erum að glíma við á sviði íslenskra heilbrigðismála er endurnýjun á húsakosti, starfsaðstöðu og aðbúnaði sjúklinga á þjóðarsjúkrahúsi Íslendinga. Alþingi tók af skarið með að uppbygging nýs Landspítala skuli vera við Hringbraut og hefur þegar samþykkt ályktun í þá veru. Staða verka er þannig að forhönnun bygginga sem tilheyra 1. áfanganum er lokið. Þetta eru um það bil 25% af hönnunarvinnunni. Þessi vinna hefur tekið til meðferðakjarna, rannsóknarhúss, sjúkrahótels, bílastæða og skrifstofuhúss, auk lóða og gatnafrágangs. Á þessu ári er unnið að fullnaðarhönnun sjúkrahótelsins í samræmi við fjárlög gildandi árs og við ráðgerum að þeirri vinnu ljúki um mitt ár 2015. Jafnframt samþykkti Alþingi að framkvæmdir skyldu hefjast þegar fjármögnun væri tryggð með þeim skilmálum að þær gætu ekki hafist fyrr en að þeirra væri getið í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Ég hef með vísan til þessa vilja Alþingis óskað eftir því við fjármála- og forsætisráðherra að þeir tilnefni hvor sinn fulltrúa í vinnuhóp á mínum vegum til að skoða þær fjármögnunarleiðir sem til greina komi með það fyrir augum að framkvæmdir geti hafist svo fljótt sem verða má.

Ég vil einnig tiltaka að efling heilsugæslunnar er eitt af forgangsmálum við gerð þessara fjárlaga. Aukið fé til hennar felur meðal annars í sér verkefni eins og fjölgun sérnámsstaða í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun, verkefni um miðlæga símsvörun í heilbrigðisþjónustunni, innleiðingu þjónustustýringar í heilbrigðiskerfinu og eflingu heimahjúkrunar til að mæta þörfum þeirra sem bíða eftir dvöl á hjúkrunarheimilum.

Helsti veikleikinn í frumvarpinu að mínu mati eru fjárframlög til sjúkratrygginga. Það er nokkuð ljóst að útgjöld til þessa málaflokks hafa á undanförnum árum verið vanáætluð og eftirspurnin eftir þeirri þjónustu sem sjúkratryggingum er ætlað að standa undir að hluta er mun meiri en þær fjárveitingar sem til ráðstöfunar eru. Erfitt getur verið að áætla fyrir þessum kostnaði þar sem um er að ræða réttindi fólks sem eru tryggð með lögum og sækir fólk það þar af leiðandi þegar það telur sig hafa þörf fyrir, burt séð frá því hvort fjárveitingar eru fyrir hendi. Meðal annars af þessum sökum hefur Ríkisendurskoðun áréttað að fjárlagatala fyrir útgjöld þessa málaflokks sé meira í ætt við áætlun en endanlega niðurstöðu.

Ég vil svo undir lok máls míns leggja áherslu á að við erum að ræða hér mjög viðkvæman málaflokk sem fylgir okkur (Forseti hringir.) frá vöggu til grafar. Umræða og skoðanaskipti okkar um þessi efni ættu því að einkennast (Forseti hringir.) af þeirri virðingu sem tilhlýðileg er í umræðu um svo viðkvæm mál sem hér um ræðir.