144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og þessar fyrirspurnir. Fyrst varðandi stöðu Landspítalans. Það er það rétt að forsvarsmenn Landspítalans hafa metið það svo að það þyrfti 4% viðbót eða um 1.800 milljónir inn í rekstrargrunn Landspítalans til þess að þeir ættu fyrir öllum sínum áherslum í starfsemi hans. Ég vil minna á það í ljósi þeirra orða sem hv. þingmaður nefndi um halla síðasta árs, að með þeirri viðbót fengi spítalinn fyrir honum og halla yfirstandandi árs, að halli Landspítalans á síðasta ári var bættur með fjárveitingum. Ef ég man rétt voru útgjöld til hans, heimildirnar, aukin um 4,3 milljarða kr. í heildina, sem m.a. dugði til að gera upp hallareksturinn og sá kostnaður sem þá var lagt í og leiðir af þeirri styrkingu sem þá var heldur áfram á þessu ári.

Vissulega er það svo að grunnur í rekstrinum er ekki aukinn meira en sem nemur þessum 260 milljónum. Það bíður fjárlaganefndar Alþingis að fara yfir röksemdir Landspítalans fyrir sinni beiðni og ég treysti nefndinni ágætlega til að meðtaka þær, en svigrúmið sem við höfðum í fjárlagagerðinni var einfaldlega ekki meira.

Um það sem lýtur að einkavæðingu og spurningu um einkavæðingu sjúkrahótels þá er ég ekki hlynntur einkavæðingu í ríkiskerfinu. Ég er hins vegar mjög hlynntur og hallur undir einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Á þessu tvennu er stór munur í mínum huga. Rekstur sjúkrahótelsins hefur verið núna um allnokkurt skeið í einkarekstri. Sjúkrahótelið er núna í útboði, nýju, sem var opnað í gær eða fyrradag og mér er ekki kunnugt um niðurstöðurnar úr því.

Varðandi lyfjamálin sýnist mér tími minn því miður vera að renna út þannig að ég svara því í síðari umferð.