144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi lyfin þá þakka ég hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þeim þætti málsins því að það gætti mikils misskilnings hér í eldhúsdagsumræðunum um þennan þátt, kannski út af óljósu orðalagi í texta frumvarpsins sjálfs en í fylgifrumvörpum var alveg óumdeilt hvernig þessu átti að vera fyrir komið. Það er ekki ætlunin að auka kostnað innlagðra sjúklinga á sjúkrastofnunum eða heilbrigðisstofnunum.

Ég tel enga sérstaka þörf fyrir að hækka lyf, S-merktu lyfin eða hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði, það er langur vegur frá. En ég spila hins vegar úr þeim fjárhagsramma sem heilbrigðismálum er skammtaður. Hvað varðar þessa sérstöku aðgerð sem lýtur að S-merktu lyfjunum vil ég bara nefna það hér og greina frá því að það sem er verið að gera er að það er verið að fella öll lyf undir sama mál, undir sömu reglu, sem veitt eru utan heilbrigðisstofnana.

Í dag er fólk í tveimur kerfum, annars vegar borgandi úti í bæ og hins vegar á lyfjum án gjaldtöku. Þetta veldur meðal annars því — samkvæmt greiðslukerfinu sem var leitt í lög 2012 var ætlunin að taka til allra lyfja utan heilbrigðisstofnana — að sumir einstaklingar komast ekki nægilega hratt upp í þakið o.s.frv. Það er óþarfi að mismuna og hugsunin í greiðslukerfinu var sú að ekki ætti að mismuna sjúklingum eftir sjúkdómum eða tegundum lyfja. Það er fyrst og fremst sú aðgerð sem er í gangi vegna þessara svokölluðu S-merktu lyfja.

Ég hef ákveðið og hef þegar skipað hóp til þess að fara í gegnum þetta, m.a. með fulltrúum notenda, til þess að innleiða þetta með sem minnstum tilkostnaði fyrir sjúklinga þannig að þetta hitti þá ekki of hart fyrir. Það er ætlun okkar að ljúka innleiðingunni á greiðslukerfi almennra lyfja sem hafin var á árinu 2013, 1. maí ef ég man rétt, og þetta er síðasti liðurinn í því.