144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega fyrirspurn og góða. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að ég vildi gjarnan sjá ríkissjóð eða sjúkratryggingar í þessu tilfelli geta deilt kostnaðinum út með öðrum hætti en við erum að sjá, í lyfjamálum sérstaklega, og hef hvergi legið á þeirri skoðun minni að mér þykir afskaplega erfitt að horfa upp á þann gríðarlega kostnað sem einstakir sjúklingar geta lent í í íslensku heilbrigðiskerfi. Það er sameiginlegt verkefni okkar að reyna að vinna okkur einhvern veginn í gegnum það. Það er flókið vegna þess að búið er að gera gjaldskrárnar og leiðirnar í þessu kerfi alveg gríðarlega flóknar á síðustu árum.

Það sem ég vildi segja um þetta, af því að hér er spurt um það til hvaða hópa þetta tekur, fyrst tiltaka það af því að ákveðins misskilnings gætir í því að þessi lyf eru ekki bara afgreidd hjá Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi eða Sjúkrahúsinu á Akureyri, að þetta eru lyf sem fást afgreidd samkvæmt lyfjaávísunum úr apótekum, það er bara þannig. Við erum með sjúklinga í þjóðfélaginu sem sækja sér lyf til apóteka, hugsanlega með ávísunum í gegnum Landspítalalækna eða sjúkrahúsin, en þau eru að skipta við apótekin alveg tvímælalaust.

Við erum að vinna í því að koma upp sama kerfi og viðgengst á Norðurlöndum. Í dag erum við í rauninni með þrískipt kerfi, þ.e. þeir sem eru innlagðir á sjúkrahús eða heilbrigðisstofnanir, þeir greiða ekki neitt. Svo erum við með hóp einstaklinga úti í þjóðfélaginu sem greiðir ekki neitt fyrir S-merkt lyf og svo erum við með þriðja hópinn sem greiðir fyrir öll sín lyf. Við erum því að reyna að einfalda þetta þannig að þetta verði annars vegar inni á sjúkrahúsum og hins vegar þeir sem taka lyf samkvæmt lyfjaávísunum. Fjárhæðirnar í þessu kerfi eru, ef ég man rétt, að hámarkið er 68 þús. kr., einhvers staðar þar um bil, (Forseti hringir.) og þegar komið er niður í neðsta afslátt eru þetta einhvers staðar rétt um 40 þús. kr., ef ég man þetta rétt. Ég hef nú samt allan fyrirvara á þessum tölum, hv. þingmaður.