144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nefna það í þessu sambandi, varðandi þetta flækjustig í gjaldtökunni í heilbrigðiskerfinu, að það var mjög mikið í lyfjamálunum og breyttist verulega til hins betra með þessu almenna greiðslukerfi. Þar var meðal annars eytt, eftir því sem sérfræðingar segja mér, mismun á milli sjúklingahópa. Það eru því allir felldir undir sömu mælistiku og þetta er síðasti lyfjahópurinn sem við eigum eftir að taka þarna fyrir. Ég skal afla mér frekari upplýsinga um afgreiðsluna á S-merktu lyfjunum en þannig var mér borin þessi upplýsing.

Varðandi breytinguna á kostnaði ríkisins vegna almennu lyfjanna í kjölfarið á þessu greiðslukerfi þá er það alveg hárrétt að á þessu fyrsta ári drógust útgjöld ríkissjóðs eða Sjúkratrygginga saman vegna þessa málaflokks. Það var viðbúið og mér er sagt að þannig hafi verið gert ráð fyrir að hlutirnir gengju.

Við sjáum hins vegar núna, það er eitt af þessum dæmum sem ég var að nefna varðandi fjárlögin og fjárlagagerðina fyrir þennan málaflokk, Sjúkratryggingar, að hann er svo ófyrirsjáanlegur vegna þess að sjúklingar sækja rétt sinn hvað sem tautar og raular, þeir eiga hann samkvæmt lögum og eiga að sækja hann og eiga allan rétt til þess.

Nú stefnir í að fjárlögin fyrir þennan útgjaldahluta Sjúkratrygginganna, almennu lyfin, séu 300 millj. kr. of lág. Það stefnir sem sagt í ár í 300 millj. kr. umframkostnað fjárlaganna á þessum lyfjalið, þannig að ríkið — svo að ég svari hv. þingmanni því beint — hefur ekki áform uppi um að draga úr kostnaðarhlutdeild sinni í þessum málaflokki.