144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:20]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti og hæstv. ráðherra. Forstjóri Landspítalans, Páll Matthíasson, hefur eins og hér hefur komið fram sagt að það vanti 4% upp á það að spítalinn geti sinnt lögbundnum skyldum sínum, það vanti um 1,8 milljarða. Þá hlýtur auðvitað fyrsta spurningin til ráðherra að vera sú, út af því að hann hlýtur að hafa lagt heilmikla hugsun í það, hvaða þjónusta það er sem spítalinn á þá að hætta að veita. Eru einhverjir ákveðnir sjúkdómar sem á að hætta að sinna eða á að hætta að sinna einhverjum ákveðnum þjóðfélagshópum? Hvað á að láta undan?

Svo er önnur tengd spurning til ráðherra sem lýtur að uppbyggingu spítalans. Það liggur fyrir einróma álit Alþingis og leiðbeining til ráðherrans um að fara eigi í uppbyggingu á Landspítalanum. Hvað ætlar ráðherrann að gera í því? Hæstv. fjármálaráðherra sagði í þingsal í gær að ekki stæði til að fara í lántökur til þess að byggja upp spítalann, og við vitum alveg hvernig staða ríkissjóðs er eða er að verða. Hvernig á þá að byggja upp spítalann, hvernig ætlar hæstv. ráðherra að gera það?

Þriðja spurningin mín snýr að þeim 145 milljónum sem ríkið ætlar að koma yfir á veikt fólk sem þarf að kaupa lyf, S-merkt lyf, í gegnum einhver önnur form en í gegnum spítalann. Hvað mega krabbameinssjúklingar á göngudeild búast við að þurfa að greiða eða aðrir sem þurfa að kaupa þessi lyf á ársgrundvelli? Við vitum samkvæmt fréttum sem berast okkur núna að fólk ber gríðarlegan kostnað í heilbrigðiskerfinu og hann er þá að fara að hækka. Hvað liggur til grundvallar? Má fólk búast við að þurfa að greiða 1 milljón á ári ef það verður veikt fyrir heilbrigðisþjónustu eða er það meira?

Hvaða vinna liggur til grundvallar þessari breytingu og hvernig mun hún koma út fyrir fólk?