144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi þá þætti sem hv. þingmaður spyr út í hér vil ég strax tiltaka að textinn í svokölluðum bandormi, sem er fylgifrumvarp fjárlagafrumvarpsins, tekur af öll tvímæli um það að krabbameinssjúklingar, af því að þeir eru gerðir hér að umtalsefni, í göngudeildarþjónustu sem fá sín lyf á göngudeild eiga ekki að greiða þau. Þetta eru S-merkt lyf utan heilbrigðisstofnana. Það er því mjög afdráttarlaust. Og þegar spurt er um hvort þeir geti lent í 1 millj. kr. kostnaði þá hef ég engar forsendur til að meta það, en ekki í tengslum við þá breytingu sem þarna er gert ráð fyrir.

Sú breyting sem þarna er verið að tala um er að innleiða hið almenna greiðslukerfi lyfja sem var leitt í lög 2014 og tók gildi 1. maí 2013. Þar er einfaldlega hámark á lyfjakostnaði einstaklinga, 67 þús. kr. eða 68 þús. kr. efri mörkin og svo eru afslættir niður í u.þ.b. fjörutíu og eitthvað þúsund kr. Við erum því að eyða mismun á milli lyfja og sjúkdóma með þessari breytingu. Það er erfitt að áætla heildarkostnaðinn sem leggst á þá sem þurfa að nota lyfin, það er alveg ljóst að það er mjög erfitt, en það mun sú vinna sem fer í gang núna væntanlega leiða í ljós. Ég geri ráð fyrir því að þetta snerti með einhverjum hætti fjögur til fimm þúsund manns en það er ekki endilega víst að allir komi til með að þurfa að greiða hærri gjöld vegna þess að afsláttarkortin telja þá inn, m.a. vegna þeirra lyfja sem hafa hingað til verið núll eða ekki með greiðsluþátttöku í, (Forseti hringir.) þ.e. S-merktu lyfjanna.