144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:25]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég hef verulegar áhyggjur af því að ráðherra segi að hann hafi engar forsendur til þess að meta hvað þetta muni þýða í raun fyrir sjúklinga. Þá er sannarlega byrjað á öfugum enda. Við getum ekki bara beðið og séð hvernig þetta muni allt í einu koma út og látið fólk bara bera kostnaðinn sjálft, er það?

Svo vil ég ítreka spurningarnar um Landspítalann, um uppbyggingu þar. Hvað ætlar ráðherrann að gera? Hvernig ætlar hann að framfylgja vilja Alþingis um uppbyggingu á Landspítalanum ef það eru, eins og ráðherra segir, ekki til neinir peningar til þess? Hvernig hyggst hann finna út úr því?

Ég vil minna á að það er hlutverk ráðherrans og við leggjum traust okkar á hv. ráðherra sem sinnir málaflokknum að hann berjist fyrir honum við ríkisstjórnarborðið, af því að hv. ráðherra lætur að því liggja að svona sé þessu útdeilt og hendur hans séu bundnar. Við gerum meiri kröfur til hans en svo og hvet ég ráðherra áfram til góðra verka.

Ég óska eftir betri og frekari svörum um spítalann, hvernig eigi að byggja hann upp og um þá 1,8 milljarða sem Landspítalinn þarf til þess að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Hvað á undan að láta, því einhverju verður þá ekki sinnt? Hvað sér ráðherra fyrir sér í þeim efnum?