144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hélt ég hefði verið tiltölulega skýr í máli mínu í ræðu minni þegar ég byrjaði þessa umræðu um vilja minn varðandi byggingaráform við Landspítala og taldi að ég hefði gert það alveg ljóst í hvaða farvegi það mál væri. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður heyrði þau orð rétt eða meðtók þau ekki. (Gripið fram í.) Það er staðan. Staðan er sú, svo ég endurtaki það sem ég sagði áðan, að við þurfum að leita leiða til að fjármagna þetta. Sú vinna er hafin, sá undirbúningur er hafinn, ég er ekki kominn til enda í því.

Það varð grundvallarbreyting á þessu máli 1. september á síðasta hausti þegar ný lög um byggingaráform Landspítalans tóku gildi sem sögðu: Þetta á að vera opinber framkvæmd og hún skal fjármögnuð úr ríkissjóði. Það er grundvallarbreyting frá því sem áður var. Hún kallar á það að við verðum að geta gert ráð fyrir þessum áformum í fjárlögum íslenska ríkisins. Ég hef sagt það sjálfur opinberlega að ég tel bestu leiðina til þess að færa eignarhluti ríkisins úr einum flokki yfir í þjóðarsjúkrahúsið og geyma eignina þar frekar en geyma hana í lóðum eða lendum eða einhverjum öðrum eignum. Það er mín skoðun.

Um það sem hv. þingmaður nefndi, hvaða þjónustu Landspítalinn ætti að hætta að sinna ef hann fengi ekki 1.800 milljónir í viðbót, hvort ég vildi útiloka ákveðna sjúkdóma eða ákveðna sjúklingahópa, þá er það ekki mitt hlutskipti. Við erum með fagfólk við störf í þessum stofnunum og ef til kemur að fjárveitingar að þeirra mati duga ekki til rekstrar þá að sjálfsögðu skilar það ráðherra tillögum. Ég hef enga þekkingu á innviðum þess, heilbrigðisþjónustunnar sem þar er veitt með tilliti til einhverrar læknisfræðilegrar þekkingar. Ég hef enga þekkingu þar. (Forseti hringir.) Þar erum við með fínt fólk, hæft fólk sem stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð.