144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru nú æði margar spurningar, ég veit ekki hvort ég kemst í gegnum þær (Gripið fram í: Vaskur maður.) — ja, vaskur maður?

Varðandi samninga við Akureyri og Höfn er gert ráð fyrir því að þeir fari undir heilbrigðisstofnanir. Höfn verður undir Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Akureyrarbær sagði upp 19. desember, eftir að fjárlög lágu fyrir, samningi um rekstur heilsugæslunnar og lýsti sig tilbúinn til að endurnýja hann ef ákveðnir tugir milljóna kæmu inn í hann, sem ég hafði engin færi á að reiða fram. Það er mjög gott að velferðarnefndin fór og hitti sveitarstjórnarmenn á Eyjafjarðarsvæðinu vegna þessa. Ég fór sömuleiðis og hitti bæjarfulltrúa á Akureyri. Ég ræddi líka við starfsfólk heilsugæslunnar og sennilega eru 90% starfsmanna þeirrar skoðunar að þetta eigi betur heima hjá ríkinu en sveitarfélaginu eftir þessa reynslu.

Varðandi rekstur sveitarfélaga á heilsugæslunni bið ég fulltrúa í velferðarnefnd líka að kynna sér þá greinargerð sem landlæknir hefur unnið varðandi þann þátt. Alltaf má deila um það hversu mikið eða lítið samráð við heimamenn á að vera. Engu að síður er það þannig að í þessu verki höfum við reynt að sinna því eftir bestu föngum, bæði meðal starfsmanna og sveitarstjórnarmanna, en á endanum verða menn líka að horfast í augu við það að bæði fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á málaflokknum liggur á höndum ríkisins og er falin heilbrigðisráðuneytinu.

Hver er staðan á sameiningunni? Þau skilaboð liggja fyrir að búið er að ráða forstöðumenn, var gert núna, þeir taka til starfa — ég er bara rétt byrjaður að svara spurningum (Forseti hringir.) hv. þingmanns, (Gripið fram í.) á nokkrar eftir. Ég skal taka það í síðari umferð, virðulegi forseti.